Erlent

„Þú breytist í múslima ef þú borðar halal kjöt"

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Michael Öhman, formaður Svíþjóðardemókrata í Heby, vill banna framreiðslu halal kjöts í skólum bæjarins.
Michael Öhman, formaður Svíþjóðardemókrata í Heby, vill banna framreiðslu halal kjöts í skólum bæjarins. Mynd/Julia Engström
Meðlimir Svíþjóðardemókrata í bænum Heby hafa farið fram á bann við framreiðslu halal kjöts í skólum bæjarfélagsins en þeir telja slátrunina stangast á við sænsk dýraverndunarlög.

Samkvæmt trúarsiðum strangtrúaðra múslima felur halal-slátrunin í sér að ekki má aflífa sláturdýr áður en þau eru skorin á háls eða stungin til að láta þeim blæða út.  Þá eru kyrjaðar súrur úr Kóraninum meðan slátrunin á sér stað en orðið halal er notað um allt það sem er leyfilegt samkvæmt íslömskum lögum. 

Það er þó ekki einu aðfinnslurnar sem Svíþjóðardemókratarnir hafa við framreiðslu kjötsins ef marka má framámann í flokknum.

„Þú breytist í múslima ef þú borðar halal-kjöt,“ sagði Michael Öhman, formaður Svíþjóðardemókrata í Heby í samtali við blaðið Sala Allehanda í gær.

Starfsmaður blaðsins spurði Öhman sérstaklega hvort hann ætti raunverulega við að halal-kjöt væri töfrum gætt og svar hans var einfalt: „Já. Þetta er nákvæmlega það sem við [innskot: Svíþjóðardemókratar] höfum varað við. Þeir [innskot: múslimar] lauma halal í allt.“

Blaðið var rétt komið úr prentun þegar lesendur þess flykktust á samfélagsmiðlana og gerðu gys að ummælum formannsins. Margir viltu komast til botns í galdraþekkingu Öhmans.

„Hvað gerist ef þú blandar saman halal og kosher-kjöti?“ spurði einn á Twitter, og vísaði þar til slátrunaraðferðar gyðinga. „Galdrar hvors kjötsins eru öflugari?“

Að sögn bæjaryfirvalda fá einungis tveir nemendur í skólum Heby kjöt sem hefur verið slátrað af íslömskum sið. Það stríði ekki gegn menntastefnu landsins sem kveður á um að sænskir skólar skuli ekki vera við trúarbrögð kenndir. Sverigedemokraterna, eða SD, hafa lengi verið umdeildir heimafyrir sem og á erlendri grundu – ekki síst fyrir stefnu flokksins í málefnum nýbúa en flokkurinn hefur barist ötullega fyrir hertri innflytjendalöggjöf í Svíþjóð. Áherslur flokksins hafa oft verið sagðar einkennast af kynþáttafordómum, andúð á útlendingum, popúlisma og fasisma.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×