Innlent

„Þrælmögnuð kona“ elti ökuníðing í Ártúnsbrekku uppi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Suzuki Vitara jepplingurinn sem mennirnir óku á í Súðavogi á flótta undan konunni.
Suzuki Vitara jepplingurinn sem mennirnir óku á í Súðavogi á flótta undan konunni. Vísir/Anton Brink
Óhætt er að segja að kona nokkur hafi gripið til sinna eigin ráða þegar ekið var aftan á bíl hennar á leiðinni niður Ártúnsbrekku seinnipart sunnudags. Sá sem ók aftan á konuna stöðvaði ekki bílinn heldur flúði af vettvangi. Konan lét ekki bjóða sér það og veitti honum eftirför niður Ártúnsbrekkuna.

Áður en yfir lauk hafði hún haft uppi á mönnunum, sem höfðu ekið aftan á kyrrstæðan bíl og reif hún af þeim bjórglas og gerði lögreglu viðvart. Gunnar M. Zóphaníasson, sem rekur bifreiðaverkstæðið Tengsli í Súðavogi, segir konuna þrælmagnaða.

Gunnar hafði skroppið í Hringrás í Klettagörðum þegar hann fékk símtal frá kollega sínum á verkstæðinu. Tilefnið var að ekið hafði verið á kyrrstæðan Suzuki Vitara jeppling sem var í viðgerð á verkstæðinu en hafði verið færður út á plan.

„Þegar við komum til baka var hér lögreglan og konan,“ segir Gunnar sem var svo vinsamlegur að útskýra fyrir blaðamanni hvað gerst hafði.

„Þegar þeir verða varir við hana stekkur bílstjórinn út úr bílnum og hleypur upp Súðavoginn,“ segir Gunnar. Hinn stökk inn í bílinn aftur og ók á brott. Vísir/Anton Brink
Tók á rás þegar konan mætti

Konan hafði veitt ökumanninum sem ók aftan á bíl hennar eftirför niður Ártúnsbrekkuna en misst sjónar af bílnum. Hún kom hins vegar að honum í Súðavogi og voru þar ökumaður og farþegi við bílinn sem hafði verið ekið á fyrrnefndan Suszuki Vitara jeppling á verkstæðinu.



„Þegar þeir verða varir við hana stekkur bílstjórinn út úr bílnum og hleypur upp Súðavoginn,“ segir Gunnar. Hinn stökk inn í bílinn aftur og ók á brott. 

Samkvæmt heimildum Vísis náði konan að taka bjórglas af mönnunum áður en þeir hurfu á brott. Mun tilgangurinn hafa verið að ná fingraförum. Þá náði hún númerinu á bílnum og gat upplýst lögreglumenn um það þegar þeir mættu á vettvang.

Þurfum fleiri svona!

„Þetta var þrælmögnuð kona, stórglæsileg á miðjum aldri,“ segir Gunnar og greinilega ánægður með hvernig hún tók málin í sínar eigin hendur. „Hún er íslenskur víkingur. Við þurfum fleiri svona!“

Bíllinn sem var í viðgerð á verkstæðinu var nokkuð skemmdur fyrir en ekki bætti áreksturinn ástand hans. Bíllinn hafði verið á verkstæðinu innandyra en færður út á meðan verið var að færa hluti til á verkstæðinu.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafði lögreglan samband við eiganda bílsins sem kom af fjöllum. Flest bendir til þess að sonur hans hafi tekið bílinn í leyfisleysi. Málið er í eðlilegum farvegi hjá lögreglunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×