Handbolti

Þórir kominn með norsku stelpurnar í úrslitaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Hergeirsson.
Þórir Hergeirsson. Vísir/AFP
Norska kvennalandsliðið í handbolta spilar til úrslita á Evrópumótinu í Ungverjalandi og Króatíu eftir fjögurra marka sigur á Svíþjóð, 29-25, í undanúrslitaleik liðanna í kvöld.

Noregur mætir Spáni í úrslitaleiknum á sunnudaginn en Svíþjóð spilar um bronsið á móti fráfarandi Evrópumeisturum Svarfjallalands.

Þetta er sjöunda Evrópumótið í röð þar sem norska liðið spilar til úrslita en Þórir Hergeirsson hefur komið að öllum þessum gullleikjum, fyrst sem aðstoðarþjálfari og svo sem aðalþjálfari frá og með EM 2010.

Norsku stelpurnar byrjuðu leikinn frábærlega og skoruðu þrjú fyrstu mörkin. Fyrsta sænska markið kom ekki fyrr en eftir tæplega fjögurra mínútna leik.

Þær sænsku minnkuðu muninn í 3-2 en þá kom annar frábær sprettur hjá norska liðinu sem var komið með sex marka forskot, 9-3, eftir rúmlega fjórtán mínútna leik.

Svíar minnkuðu muninn fyrst í 9-6 með þremur mörkum í röð og svo enn frekar í eitt mark, 10-9, þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir af hálfleiknum. Norska liðið leiddi síðan að lokum með tveimur mörkum í hálfleik, 13-11.

Sænska liðið beit svolítið frá sér í byrjun seinni hálfleiks og minnkað muninn ítrekað í eitt mark, síðast í 18-17, þegar 20 mínútur voru eftir af leiknum.

Norsku stelpurnar gengu þá nánast frá leiknum, sænska liðið skoraði ekki sex mínútur og á sama tíma skoruðu Norðmenn fjögur mörk í röð og komust í 22-17.

Norska liðið náði mest sex marka forskoti á lokakaflanum og vann að lokum afar öruggan sigur.

Norska liðið náði „aðeins“ fimmta sæti á Heimsmeistaramótinu í Serbíu í fyrra en Þórir er búinn að byggja upp nýtt frábært lið sem verður spennandi að sjá í úrslitaleiknum á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×