Menning

„Þetta voru hreyfiár“

Ásdís Sigmundsdóttir skrifar
Pétur Gunnarsson „Pétur segir sögur alveg einstaklega vel og skemmtilega.“Fréttablaðið/GVA
Pétur Gunnarsson „Pétur segir sögur alveg einstaklega vel og skemmtilega.“Fréttablaðið/GVA
Bækur:

Veraldarsaga mín: Ævisaga hugmynda

Pétur Gunnarsson

JPV



Það kemur á óvart þegar titillinn er hafður í huga hversu stutt tímabil bók Péturs Gunnarssonar, Veraldarsaga mín: Ævisaga hugmynda, nær yfir. Innri tími frásagnarinnar er einungis fimm ár af lífi höfundar, frá 1968, þegar hann heldur utan til náms í Frakklandi, til 1973, þegar bæði fyrsta bók og fyrsta barn hans koma í heiminn. Þetta eru sannarlega mótunarár – árin eftir tvítugt þegar maður er að finna sér stað og hlutverk í heimi hinna fullorðnu og er bæði að kynnast nýrri hugmyndafræði og hefur þroska til að skilja hana. Þær hugmyndir sem maður kynnist á þessum árum eiga yfirleitt stóran þátt í að móta lífsafstöðu manns til frambúðar. En sem ævisaga og veraldarsaga er þetta ansi þröngt sjónarhorn. Maður saknar þess að fá betri innsýn í það samhengi sem þessi reynsla og innspýting hugmynda kemur inn í. Hvort sú ákvörðun að takmarka umfjöllunina á þennan hátt ræðst af því að Pétur hefur þegar notað líf sitt ansi mikið í skáldverkum sínum eða af öðrum orsökum er erfitt að dæma en nafn bókarinnar gefur ekki sérstaklega til kynna að þetta sé einungis fyrsta bindi af mörgum.



Það má alltaf spyrja sig hvert erindi ævisagna sé en hér er það sýnilega ekki markmiðið að gefa heildarsýn yfir æviferil höfundar, gefa innsýn í mótunarferil hans sem rithöfundar eða samfélagsástand. Þessi bók segir fyrst og fremst af lífi Péturs og konu hans á þessum árum, þeim hugmyndum sem hann kynntist í tengslum við háskólanám sitt, ásamt frásögnum af vinum þeirra sem fá allstóran sess í bókinni, sérstaklega skáldið Sigurður Pálsson og Ólafur H. Torfason, sem Pétur tileinkar bókina. Pétur og félagar eru áhugaverðar persónur og því er Veraldarsaga mín ánægjuleg lesning. Pétur segir sögur alveg einstaklega vel og skemmtilega en þó að oft sé hægt að greina væntumþykju hans gagnvart þeim sem standa honum næst á þessum árum (þ.ám. kettinum þeirra) þá fjallar höfundur ekki mikið um eigin upplifanir og tilfinningar gagnvart atburðum, hvort heldur þær sem hann upplifði þá eða þær sem upprifjunin vekur. Að minnsta kosti er hann ekki að hleypa lesendum sínum þar að. Þannig skautar hann t.d. ansi hratt yfir bæði vonbrigðin við að fá höfnun á fyrsta handritinu sem hann sendi inn og viðbrögð sín þegar fyrsta bók hans kemur út. Því síðarnefnda lýsir hann sem svo: „Var ég þar með orðinn skáld? Hvernig átti mér að líða?“ (122) en svarar þeim spurningum ekki nema með sögu af því þegar kunningjakona hans keypti bókina hans og „lagði á borð ásamt nýbökuðu brauði og ilmandi rúnstykkjum“ (123).



Í ljósi rithöfundarferils Péturs Gunnarssonar er þó áhugavert að sjá hvað hann tekur með sér frá þeim heimspekihugmyndum sem hann kynnist á þessum árum. Hann lýsir því hvernig hann hafi heillast af frásögninni af því hvernig Descartes hafi fengið hugmyndir sínar um manninn og í sambandi við þann hugsuð sem hafði mest áhrif á hann, Karl Marx, segir hann: „Það var sagan á bak við sem fangaði mig“(51). Frásagnir af hugmyndum eru í meðförum Péturs fyrst og fremst frásagnir af fólki en það er einmitt það sem hann gerir svo vel. Að því leyti bregður þessi bók upp ágætri mynd af Pétri Gunnarssyni sem rithöfundi. Hann hefur áhuga á að fjalla um fólk – fólkið á bak við atburði og hugmyndir – og gerir það þannig að mannskilningur hans og húmor koma skýrt í ljós.

Niðurstaða: Pétur er skemmtilegur sögumaður sem gaman er að fylgja en efnið er frekar þröngt afmarkað til að standa undir titlinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×