Innlent

„Þetta var öðruvísi bit en öll bit sem ég hef fengið“

Samúel Karl Ólason skrifar
Kristín Jóhanna Gunnarsdóttir var bitin af skógarmítli í Borgarfirði.
Kristín Jóhanna Gunnarsdóttir var bitin af skógarmítli í Borgarfirði.
„Þetta var svo sárt og svo vont og það kom eins konar kýli. Þetta var öðruvísi bit en öll bit sem ég hef fengið,“ segir Kristín Jóhanna Gunnarsdóttir. Hún var bitin af skógarmítli og sagði sögu sína í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Kristín var bitin í lærið í sumarbústað sínum í Borgarfirði þann 28. maí síðastliðinn. Hún varð ekki vör við bitið en fór degi seinna til læknis í Borgarnesi.

Læknirinn sá strax að um skógarmítil var að ræða. „Ég var svo heppin að hún setti mig undir eins á sýklalyf. Ég var á þessum lyfjum í tíu daga til að byrja með.“

Seinna hafði maður samband við hana sem einnig hafði gengið í gegnum þetta og var illa haldinn eftir það.

„Hann sagði mér að ég þyrfti að fara á sterkari kúr. Ég er búin að vera á lyfjakúr í sjö vikur, á þreföldum sýklalyfjaskammti, og lauk honum fyrir hálfum mánuði síðan. Ég er bara að vona að þetta sé farið úr mér.“

Hún segir að ljós hringur hafi myndast í kringum bitið og annar rauður hringur hafi svo myndast utan um hann.

„Mér er sagt að það sé merki um að hann hafi náð að senda frá sér eitthvað eitur.“

Kristín segir einkenni bits vera mjög slæm flensu einkenni. Síðan hún var bitin hefur hún fundið fyrir þeim og gerir enn.

„Ég er ennþá hundslöpp,“ sagði Kristín.

Kristín segir að það ætti ekki að fara fram hjá neinum sem hafi verið bitinn. Sá verði aumur þar sem hann var bitinn og finni mikið til.

Nokkrir einstaklingar hringdu svo inn í þáttinn og sögðu frá reynslu sinni af skógarmítlum, en hægt er að hlusta á þennan hluta þáttarins hér efst.


Tengdar fréttir

Skógarmítill festir sig í sessi hérlendis

"Þeir geta verið með bakteríur í maganum, og þegar þeir læsast í húðina þá tengjast þeir húðinni okkar og gubba innihaldi magans inn í okkur,“ segir Bryndís Sigurðardóttir smitsjúkdómalæknir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×