Viðskipti innlent

„Þetta var ævintýri lífs míns“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Jón, eða Brói eins og hann er yfirleitt kallaður, í hlutverki sínu í auglýsingunni.
Jón, eða Brói eins og hann er yfirleitt kallaður, í hlutverki sínu í auglýsingunni. mynd/skjáskot úr auglýsingunni

„Þetta var ævintýri lífs míns að fá að fara þarna út og taka þátt í þessu,“ segir Jón F. Benónýsson en hann er í aðalhlutverki í nýrri auglýsingu Icelandair. Auglýsingin var frumsýnd fyrir leik Hollands og Íslands í gær og vakti talsverða lukku.

Auglýsingin hefst á erlendri grund þar sem Jón kveður konu sína og leggur í ferðalag. Undir ómar sigurlag Ítalíu úr Eurovision keppninni árið 1964 en þá söng hin sextán ára Gigliola Cinquetti lagið Non ho l'etá eftir Mario Panzeri. Ári síðar snaraði Ólafur Gaukur Þórhallsson textanum yfir á íslensku og Ellý Vilhjálmsdóttir söng það inn á samnefnda plötu. Íslenska útgáfa lagsins tekur við um miðbik auglýsingarinnar er flugvél Icelandair snertir flugbraut Keflavíkurflugvallar.

Mikil keyrsla í miklum hita

„Það var haft samband við mig og ég var spurður hvort ég hefði áhuga á að leika í þessari auglýsingu. Það vantaði mann sem gæti leikið en væri ekki þjóðþekktur. Í upphafi vildu þeir fá mig suður í prufur en ég hafði engan tíma fyrir slíkt,“ segir Jón. Hann, ásamt syni sínum, brá á það ráð taka prufuna upp og senda suður. Tveimur dögum síðar var hann ráðinn. „Þetta var hellings keyrsla. Fjörutíu stiga hiti og mikil keyrsla allan daginn.“

Jón er ekki ókunnur myndavélum eða leiksviði. Hann leikur til að mynda í verðlaunamyndinni Hrútum eftir Grím Hákonarson og hefur leikið talsvert í áhugaleikhúsum norðan heiða. Hann lék einnig í Leikfélagi Akureyrar, til að mynda í Útlaganum, í fáein ár fyrir hátt í fjörutíu árum síðan.

„Þá ætlaði ég að slá í gegn,“ segir Jón kíminn. „Það tók mig um fjörutíu ár að komast á kortið sem sýnir einfaldlega að maður á aldrei að gefast upp. Þetta skilar sér alltaf á endanum.“

Auglýsinguna má sjá hér að neðan auk fáeinna viðbragða við henni.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×