Viðskipti innlent

„Þetta hefur áhrif á fleiri en umbjóðanda minn“

Samúel Karl Ólason skrifar
Einar Hugi Bjarnason, lögmaður.
Einar Hugi Bjarnason, lögmaður. Vísir/Rósa
Hafi breytingar verið gerðar á skilmálum gengistryggðra lána á milli lántakenda og lánveitenda geta  lántakendur, að öðrum skilyrðum uppfylltum, átt rétt á samningsvöxtum á því tímabili sem breytingin var í gildi. Ekki seðlabankavöxtum.

Héraðdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í máli Steingríms Aðalsteinssonar gegn Landsbankanum.

Kjarni deilunnar var hvaða áhrif það hefði á uppgjör gengislána að skilmálabreytingar voru gerðar á samningstímanum.

„Bankinn hélt því fram að á meðan slíkar skilmálabreytingar væru í gildi, ætti að reikna seðlabankavexti. Því var umbjóðandi minn ósammála og vísaði til þess að þarna væri samningur á milli bankans og lántakans sem ætti ekki að hafa áhrif á rétt hans til samningsvaxta enda hefði hann fullnaðarkvittanir undir höndum,“ segir Einar Hugi Bjarnason, lögmaður einstaklingsins.

Einstaklingurinnvann málið að fullu og átti því rétt á samningsvöxtum á því tímabili sem þessar skilmálabreytingar voru í gildi.

„Þetta getur skipt máli fyrir fleiri en minn umbjóðanda því þegar krónan fór að veikjast og gengislánin stökkbreyttust var algengara en ekki að lántakar færu og ræddu við lánveitendur. Margir reyndu á þessum tíma að semja um einhverskonar breytingar eða frestun á upphaflegum greiðsluskilmálum með það að markmiði að halda lánum í skilum,“ segir Einar.

„Þetta er mjög mikilvægur dómur. Að fá úr þessu skorið að þó að skilmálabreytingar hafi verið gerðar að þá kemur það ekki í veg fyrir að menn geti átt rétt á samningsvöxtum á því tímabili.“

„Afborganir hækkuðu og margir hverjir réðu ekki við þær og fóru og sömdu við bankann um frystingar eða einhvers konar breytingar. Þannig að þetta hefur áhrif á fleiri en minn umbjóðanda.“

„Þarna þurfti þessi einstaklingur að fara í dómsmál við stærsta fjármálafyrirtæki á Íslandi til að fá þennan rétt sinn viðurkenndan,“ segir Einar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×