Fótbolti

„Þetta eru falsfréttir“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Yonghong Li er eigandi AC Milan.
Yonghong Li er eigandi AC Milan. Vísir/Getty
Yonghong Li segir ekkert til í þeim fregnum að hann sé orðinn gjaldþrota. Li er eigandi og forseti AC Milan.

Corriere della Sera heldur því fram að Kínverjinn hafi neyðst til að selja eignir sínar á uppboði til að eiga fyrir skuldum.

Þessum fregnum svaraði hann með yfirlýsingu sem birtist á heimasíðu AC Milan í gær. Þar segir hann fréttaflutning Corriere della Sera falsfréttir (e. fake news) og hafa verið skaðlegan félaginu, fyrirtækjum hans, honum sjálfum sem og fjölskyldu hans.

Enn fremur hélt hann því fram að eignir hans væru hólpnar og að reksturinn væri stöðugur.

Félag Li, Rossoneri Sport Group, keypti AC Milan af Silvio Berlusconi fyrir 88 milljarða króna í apríl síðastliðinum. Félagið eyddi svo 200 milljónum evra í nýja leikmenn í sumar en situr í sjöunda sæti ítölsku 1. deildarinnar með 41 stig, 25 stigum á eftir toppliði Napoli.

Vincenzo Montella var rekinn sem knattspyrnustjóri AC Milan í nóvember og Gennaro Gattuso, fyrrum leikmaður liðsins, ráðinn í hans stað. Milan tapaði síðast leik fyrir jól og hefur nú leikið sjö deildarleiki í röð án þess að tapa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×