Innlent

„Þetta er orrustan um Ísland og við ætlum að vinna hana“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Fjölmennt var í Háskólabíó í gær.
Fjölmennt var í Háskólabíó í gær.
„Það var alveg fullt út úr dyrum,“ segir Kristín Helga Gunnarsdóttir, rithöfundur og blaðamaður, en hún hélt erindi á Paradísarmissir? Hátíð til verndar hálendinu í gærkvöldi. „Þetta var alveg dásamleg stund. Gefur upptaktinn af því sem koma skal og sýnir að náttúruverndarhreyfingin er fjöldahreyfing.“

Ásamt Kristínu Helgu héldu erindi Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Þórarinn Eyfjörð, Einar Örn Benediktsson, Steinar Kaldal, Kristín Helga Gunnarsdóttir, Snorri Baldursson, Tinna Eiríksdóttir, Þorbjörg Sandra Bakke, Hrönn Guðmundsdóttir og Andri Snær Magnason. Auk þess stigu á stokk tónlistarmennirnir AmabAdamA, Mammút, 1860, Una Stef, Valdimar Guðmundsson, Jónas Sigurðsson og Ómar Ragnarsson. 

Viðamiklar framkvæmdir sem ganga gegn vilja almennings

Hátíðin var haldin á vegum Landverndar, Náttúruverndarsamtaka Íslands, Ferðafélagi Íslands, Ferðafélaginu Útivist, Ferðaklúbbnum 4x4, Framtíðarlandinu, SAMÚT (Samtök útivistarfélaga) og Gætum Garðsins, með styrk frá Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar í Háskólabíó. Hún var haldin í því skyni að vekja athygli á mikilvægi þess að vernda hálendið í tilefni af fyrirhuguðum framkvæmdum á hálendi Íslands. 

„Tillögur eru um að leggja uppbyggðan veg um Kjöl og háspennulínu og uppbyggðan veg yfir Sprengisand. Þá undirbúa orkufyrirtækin að reisa að minnsta kosti fimmtán nýjar virkjanir eða uppistöðulón á hálendinu, þar af eru fjórar fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðum sem nú eru í verndarflokki í verndar- og orkunýtingaráætlun stjórnvalda (rammaáætlun). Þessar framkvæmdir myndu ganga gegn vilja almennings, en í könnun Capacent Gallup árið 2011 sögðust 56% aðspurðra hlynnt því að miðhálendið verði gert að þjóðgarði,“ segir á vefsíðu framtaksins Hjarta landsins.

Fjölbreyttur hópur náttúruverndarsinna

Færri komust að en vildu á hátíðina í gær. „Þetta er breiðfylking, það er mjög ólíkt fólk sem er að mæta núna, kemur héðan og þaðan og er með ólíkan bakgrunn.“ Hún lýsti í erindi sínu vitundarvakningu á Íslandi. „Hún er ekki bara á Íslandi heldur út um alla veröld. Við erum mörg og okkur fjölgar mjög hratt,“ sagði Kristín í gær.

„Því miður líka vegna þess hve víða blikur eru á lofti.“ Kristín lýsir fyrirhugðum framkvæmdum eins og verið sé að slá þjóðinni mörg ár aftur í tímann. Hún bendir á að maðurinn sé hluti af vistkerfi sem við verðum að skilja vel eftir okkur fyrir komandi kynslóðir. „Öll hugsun stjórnmálamanna ætti að stjórnast af því hversu lítil fótspor við mögulega getum skilið við okkur.“ 

Engar öfgar í hópi náttúruverndarsinna

Hún hefur litla trú á að framkvæmdirnar gangi eftir. „Það er svo óskaplega mikill mannfjöldi sem stendur á móti þessu. Þetta er orrustan um Ísland og við ætlum að vinna hana,“ segir hún og vísar í hversu mikill baráttuhugur hafi verið í fólki í Háskólabíó í gærkvöldi. 

Kristín segist að lokum ekki skilja þá umræðu sem hefur farið á flug um að náttúruverndarfólk prediki öfgar og séu öfgasinnar. „Við mælum fyrir hófsemd, við erum hófsemdarfólk.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×