Innlent

„Þetta er næstum valdarán“

Þórður Ingi Jónsson skrifar
Birgitta Jónsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir.
Ítarlegt viðtal við Birgittu Jónsdóttur var birt á fréttamiðlinum Vice í gær þar sem hún talar meðal annars um störf Pírata og Wikileaks hér á Íslandi eftir efnahagshrunið.  Þar kemur fram að vendipunktur í lífi hennar hafi verið í júlí 2008 þegar netaðgerðarsinninn John Perry Barlow hélt ræðu á ráðstefnu í Reykjavík um stafrænt frelsi, the Icelandic Digital Freedom Conference.

„Hann lagði til að Ísland yrði eyja þar sem upplýsingar gætu verið geymdar á öruggan og varanlegan hátt, sýnilegar fyrir öllum,“ segir í greininni. „Draumurinn minn fyrir þetta land er að það gæti orðið eins og Sviss fyrir stafræna bita,“ sagði Barlow. „Mig langar að hvetja ykkur til að gera allt sem í ykkar valdi stendur til að gefa fólkinu réttinn til að vita.“ Nokkrum mánuðum eftir ræðu Barlows hrundi efnahagur landsins.

Í greininni er síðan sagt frá fyrstu skrefum Birgittu í stjórnmálum. „Íslendingar voru að leita að breytingum og opinber andúð Birgittu á stjórnmálamönnum og valdi þeirra virtist vera einmitt það sem landsmenn leituðust eftir.“

Í greininni segir að Birgitta hafi lifað og þrifist á netinu frá árinu 1995. Árið eftir skipulagði hún CU-SeeMe, hið fyrsta íslenska „livestream“ og fyrirrennara Skype. „Ég varð hluti af þessu alþjóðasamfélagi sem skildi að við gætum breytt heiminum með því sem við gerðum á netinu,“ segir Birgitta.

„Á meðan blaðamenn, aðgerðarsinnar og aðrir verjendur málfrelsisins verða fyrir gríðarlegum þrýstingi frá ríkisstjórnum og fyrirtækjum, þá vill þetta pinkulitla 320.000 manna land í reynd verða griðastaður þeirra,“ segir í greininni. „Og það er að miklu leyti Birgittu að þakka.“ Upphaf og þróun IMMI, alþjóðlegrar stofnunar um upplýsinga- og tjáningarfrelsi, er meðal annars rekið í greinni.

Þorvaldur Gylfason.
Fleiri einstaklingar sem voru virkir í stjórnmálum eftir kreppu koma fyrir í greininni svo sem Kristinn Hrafnsson, Smári McCarthy og Þorvaldur Gylfason. Sá síðastnefndi segir í greininni að á Íslandi hafi þróast mikill pukurháttur, einn af þeim hlutum sem hafi orðið til hrunsins árið 2008. 

„Hin nýkosna ríkisstjórn reyndi að setja inn ákvæði í fyrirhugaða nýja stjórnarskrá sem hefðu aðstoðað IMMI við að ná markmiðum stofnunarinnar. Hætt var við nýju stjórnarskrána í fyrra þrátt fyrir mikinn pólitískan og almennan stuðning. „Það er mjög erfitt að ímynda sér það að Alþingi muni komist upp með þetta lýðræðisbrot,“ sagði Þorvaldur í greininni. „Þetta er næstum því valdarán.“"




Fleiri fréttir

Sjá meira


×