Innlent

„Þetta er lamandi ótti sem heltekur mann"

Magnús Guðmundsson skrifar
Visir/Vilhelm
„Ég er alin upp hjá ömmu og afa og hjá þeim fékk ég ástríkt og gott uppeldi. Amma féll frá í janúar síðastliðnum og það var erfitt en við afi hittumst alltaf vikulega á hverjum sunnudegi á Kaffivagninum. Hann er alveg dásamlegur og það eru góðar stundir,“ s egir Edda Björg Eyjólfsdóttir leikkona en hún og Stefán Már Magnússon tónlistarmaður eiga saman tólf ára strák og stelpu sem er að verða þriggja ára, sem aðeins mánaðargömul reyndist örlagavaldur í lífi Eddu.

Svart og brútal

Edda kemur arkandi til viðtals að lokinni æfingu dagsins á verkinu 4:48 PSYCHOSIS eftir enska leikskáldið Söruh Kane. Þetta verk hefur fylgt Eddu lengi og það er henni greinilega hjartans mál en fyrir dyrum er frumsýning í næstu viku.

„Þetta verk er eiginlega kveðjubréf Söruh Kane sem tók líf sitt ung að árum enda segir hún í verkinu: „Eftir 4:48 mun ég aldrei segja orð.“ Þetta verk er eins og fara í leiðangur um lendur mjög veiks huga en Sarah Kane þjáðist af geðhvarfasýki. Þegar hún hafði lokið við verkið fór hún upp á spítala þar sem hún átti að vera undir eftirliti en svo hengdi hún sig í skóreimunum inni á baðherbergi á Kings College Hospital. Verkið var ekki frumsýnt fyrr en um ári eftir að hún lést en það liggja líka eftir hana fleiri verk sem eru öll mjög þekkt og tilheyra þessu „in your face“ leikhúsi en hún gekk mjög langt í sínum verkum. Mikil fegurð en allt rosalega svart og brútal. Stundum er þetta leikið með fleiri en einni konu en stundum sem einleikur og við gerum þetta sem einleik. Ég verð reyndar ekki alveg ein því tónlistin og hljóðmyndin í sýningunni er eftir þá bræður Stefán Má og Magnús Örn Magnússyni og þeir flytja á sviðinu meðan á sýningu stendur.

Vísir/Vilhelm
Upphaflega kom þetta verk til mín árið 2005 þegar ég var í Borgarleikhúsinu og þá stóð til að setja þetta upp og ég átti að fá að leika þetta. Verkið var þýtt af Diddu skáldkonu en svo varð ekkert af uppfærslunni, svona eins og gengur. En ég var búin að lesa og það hafði mikil áhrif á mig svo verkið sleppti mér aldrei alveg. Í dag er ég glöð að ég skyldi ekki hafa gert þetta þá því er ég var ekki komin með lykilinn að verkinu – hann kom seinna.“

Lítið slys en stórar tilfinningar

„Þegar ég átti stelpuna og hún var um mánaðargömul þá gerist það að ég hrasa í stiganum heima. Það var verið að dúkaleggja og þetta fór ekkert illa eða neitt slíkt. En ég var nýbúin að eiga og var í svona baby blues – og þurfti auðvitað að fara upp á spítala og láta tékka á að það væri örugglega allt í lagi með hana sem það var.

En þetta litla slys verður til þess að ég fæ fæðingarþunglyndi. Ég bara komst ekki út úr húsi. Það gerðist ekkert slíkt þegar ég átti strákinn en kannski var það undirliggjandi. Ég fór bara að vinna snemma þegar ég átti hann, var miklu yngri og fann ekki fyrir neinu slíku. Það var bara svona þetta klassíska sem mæður finna, að þær munu gera einhver mistök. En við þetta slys eykst svo mikið þessi hræðsla, þessi ótti við lífið, og ég kemst bara ekki út. Ég bý uppi í risi og ég bara gat ekki farið niður stigann.“

Hvað er að?

„Ég fékk áfallahjálp eftir slysið og þar var höfðað til skynseminnar og ég var svo heppin að fara á stað sem heitir Miðstöð foreldra og barna, þar er teymi af sálfræðingum og geðlæknum og þar var líka sálgreinir sem ég hafði áður gengið til. Þar fékk ég frábæra aðstoð og gerði mér grein fyrir að það var í mér undirliggjandi kvíði og þunglyndi sem blossaði upp við þetta litla atvik.

Ég var kvíðinn krakki – áhyggjufull og eftir því sem ég hef elst þá er ég oft að takast á við svona hluti, finnst kannski erfitt að fara í póstinn minn eða að takast á við ákveðna hluti í daglegu lífi. Það má segja að í stað þess að vera í 100% lífshamingju þá hafi ég verið í svona 75% þó svo að ekkert sé að. Það geta komið svona hamfarahugsanir þar sem ég ímynda mér að allt fari á versta veg. Verð t.d. svona þessi mamma sem er alltaf að segja: Athugaðu hjálminn, ertu ekki nógu vel klæddur og fer að hringja og tékka allt. Ef þessi tilfinning er í gangi þá þarf maður að passa upp á sig en maður verður líka að skoða hvað það er sem er að valda vanlíðan, kvíða, óöryggi og ótta.

Hvað það var í mínu tilviki er svo annað mál. Ég get ekki sagt að það hafi verið eitthvað eitt því ég hef verið lánsöm og ekki lent í neinu hræðilegu í mínu lífi. Ég er að skoða þetta í mínu fari og það er enn á því stigi að vera eitthvað sem ég þarf að halda fyrir mig. Þegar ég hugsa til baka þá man ég bara eftir þessari tilfinningu – ég er eitthvað svo kvíðin. Þá vaknar þessi spurning; hverju hefur þú að kvíða? En svarið var alltaf – ég bara veit það ekki. Það bara var eitthvað þarna, einhver tilfinning og óöryggi sem bara var þarna. Það þarf ekki að vera þannig að það sé eitthvað eitt ákveðið sem orsakar þetta en fólk vill fá svar við spurningunni; hvað er að?“

Vísir/Vilhelm
Lamandi ótti

Edda segir að hún hafi í raun ekki verið svo þunglynd að hún hafi ekki komist fram úr en að sama skapi þá geti hún líka skapað sér aðstæður þar sem henni líður illa. „Eins og þegar ég var í íbúðinni þá þurfti ég að biðja Stebba um að hjálpa mér að komast út en ég komst út.

En svo fór ég í þessa meðferð og komst að því að það er ekki eðlilegt að líða svona. Þetta er vítahringur sem þarf að rjúfa. Ég man eftir því að læknir sagði við mig að ég hefði nú kannski verið með undirliggjandi kvíða og þunglyndi en ég hélt nú ekki. Maður er með svo mikla fordóma. Um kvöldið þegar ég lagðist á koddann þá fór ég að fara yfir þetta samtal í huganum og hugsaði hvern andskotann manneskjan væri eiginlega að meina með þessu. Ég ætla bara hringja á morgun, tala við hana og segja þetta og hitt. Maður fer að upplifa hlutina svo undarlega og lesa rangt í margt. Eftir á sá ég svo hvað ég var í raun á vondum stað og leið illa og þurfti mikið á hjálp að halda. Hjálp sem ég fékk og þáði og kom mér út úr þessu.

Við fórum saman með barnið því þessi meðferð er oft líka fyrir mæður sem upplifa hræðslu við börnin sín eða þola þau ekki og þetta eru tilfinningar sem koma upp en enginn talar um. Ég fór ekki í gegnum slíkt heldur var það meira svona eins og innri lömun. Ég ætla bara að halda á henni hér og ekki fara neitt og þá verður allt í góðu. Lamandi ótti sem heltekur mann.“

Stoppistöðvar

Eins og Edda bendir á þá er þetta ástand sjúkdómur og hann þarf að meðhöndla sem slíkan. „Þetta fékk mig til þess að hugsa. Þarna náði ég miklum árangri á tiltölulega stuttum tíma en það eru afskaplega litlir peningar settir í þetta starf sem er í raun afskaplega þarft og mikilvægt. Engu að síður held ég að það séu í raun fjölmargar mæður sem lenda í því að fá fæðingarþunglyndi af einni eða annarri ástæðu eða jafnvel bara af engri ástæðu.

Hér á Íslandi tölum við alltaf um skammdegisþunglyndi en hvað er það? Það er kvíði, ótti og vanlíðan. Þú getur t.d. ekki hringt í vinnuveitanda þinn og sagt: Heyrðu, ég kemst ekki í dag, því ég á ég erfitt með að mæta fólki, treysti mér ekki til þess að taka símann, er með frestunaráráttu, get ekki klætt mig í sokka og skó og farið út heldur bara verð að liggja í rúminu eða helst undir því. En þú getur hringt og sagt að þú hafir verið með hita eða uppköst og annað slíkt líkamlegt en þú segir ekki hitt. Því miður.

Allt þetta ferli sem á sér stað áður en að einhver verður mjög veikur, þar er fullt af stoppistöðvum. Við þurfum að ná í fólk og hjálpa því á þessum stöðvum áður en illa fer. Ég var svo heppin að fá hjálp en upplifði samt mína eigin fordóma og passaði mig á að vera ekkert að tala um þetta út á við. Í dag geturðu farið til heimilislæknis eða labbað inn á geðdeild en það er ekki nóg. Þetta má ekki vera svona mikill stimpill eins og það er í dag. Annaðhvort ertu geðveik eða þunglynd eða þú ert heilbrigð. Það er eins og það sé ekkert þarna á milli og þannig er það ekki í veruleikanum. Ef ég hefði ekki eignast dóttur mína og dottið með hana í stiganum hefði þetta líklega haldið áfram innra með mér – ég hefði kannski ekki farið yfir um en mér hefði liðið mjög illa og verið full eftirsjár þegar ég hefði horft til baka. Þannig að við þurfum að bæta stoppistöðvarnar og eyða fordómunum. Þetta má ekki vera svona mikið tabú eins og það er í dag.“

Vísir/Vilhelm
Mitt framlag

„Þegar ég var að takast á við þessar tilfinningar á þessum tíma leitaði hugurinn aftur í þetta verk eftir Söruh Kane. Svo ég keypti réttinn á því og ákvað að takast á við það. Fannst að það væri heilun í þessu og að þetta yrði mitt innlegg til þessara málefna. Þetta er umræða sem mig langar til þess að taka þátt í og leggja mitt af mörkum til þess að varpa ljósi á geðsjúkdóma og vinna að forvörnum því þær geta breytt svo miklu.

Friðrik Friðriksson er að leikstýra og Stefán Hallur er þarna líka og fleira gott fólk sem hefur haldið afskaplega vel utan um mig í þessu ferli. Reyndar er ég nokkrum sinnum á leiðinni búin að hugsa „hvurn andskotann er ég búin að koma mér í, þetta er hræðilegt“ en nú er ég komin yfir erfiðasta efasemdarkastið og hætt að æla blóði og vera með niðurgang,“ segir Edda Björg og hlær prakkaralega og viðurkennir að hafa ekki ælt blóði en svo sannarlega liðið líkamlega skelfilega í æfingaferlinu þar til fyrir stuttu síðan.

„Málið er að ég er líka að framleiða og að fjármagna sýninguna og fá styrki og ráða mig í vinnu. Þá verður maður enn harðari við sjálfan sig og það er eitt af því sem fylgir þessu ástandi; þetta endalausa innra samtal þar sem maður er í sífellu með svipuna á sjálfum sér. En ég tengi mjög mikið við það sem Sarah er að ganga í gegnum þegar hún skrifar verkið þó svo hún hafi auðvitað verið miklu veikari en ég nokkurn tíma. Hún var svo skelfilega veik að það endaði með því að hún féll fyrir eigin hendi og er búin að fara í gegnum punktinn í þeim sárasta sársauka sem manneskjan finnur innra með sér. Þannig að ég get ekki neitað því að þessi vinna, að leika þetta verk, hún tekur á og vel það.“

Öll skip til hafnar

„En svo fer maður heim eftir æfingu og auðvitað vill maður skilja vinnuna eftir en það sullast bara yfir. Það sullast alltaf yfir í þessari vinnu og þetta er alltaf með manni. Og ef ég fer ekki í dalinn og efast þá er eitthvað að. Þá er ég ekki að gera rétt. Í þessu starfi verður maður að upplifa þessa angist. Þessi vinna er angist. Allar efasemdirnar, óöryggið og sjálfsfyrirlitningin koma saman í einum punkti í þessari vinnu. En svo kemur maður út úr þessari angist og sættist við að gera sitt besta og njóta þess. Gera þetta bara.

Ég er þannig gerð að ég leita í krefjandi verkefni í lífinu almennt og ákveð að takast á við hluti sem reyna á mig. Jafnvel þó að ég sé hrædd við verkefnið og finnist það ógnvekjandi þá sé ég það eins og próf í lífinu sem ég þarf að taka. Þetta er líka hluti af þessu starfi, þegar maður þarf að búa sér til vinnuna sem maður vill vinna eins og í þessu tilviki. Ég vil leika þetta leikrit eins ógnvekjandi og það verkefni er.

Þess utan reyni ég bara að vera í yfirborðinu. Koma upp til að anda. Ég bið bænirnar mínar, stunda hugleiðslu, fer í sund á morgnana og fæ mér ís með krökkunum endrum og sinnum og þessar stundir bjarga mér gjörsamlega. Núna er ég bara hæfilega kvíðin fyrir frumsýningunni og það er nú allt eins gott að það sé einhver kvíði þarna enn þá því annars væri nú klárlega eitthvað að. En nú eru öll skip að koma til hafnar og allt að smella. Það er góður tími í leikhúsinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×