Innlent

"Þetta er ennþá í fullum gangi"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Jarðskjálfti upp á 5,7 í Bárðarbungu í nótt er sá langsnarpasti frá upphafi skjálftahrinunnar og annar stór skjálfti, upp á 4,6, varð rétt fyrir hádegi. Vísindamenn flugu með TF SIF yfir óróasvæðið í dag en ekkert nýtt var að sjá á yfirborðinu.

Seinni skjálftinn fannst alla leið til Akureyrar en þess fyrri varð ekki vart í byggð, þótt hann væri stærri. „Þetta var óvenjustór skjálfti miðað við að vera ekki á suðurlandsskjálftabeltinu eða norðurlandsskjálftabeltinu,“ segir Oddur Sigurðsson, jarðfræðingur á Veðurstofu Íslands. „Þetta er með stærstu skjálftum sem verða í eldgosabeltinu.“

Þegar við hittum Odd var hann nýkominn úr fluginu með TF SIF, þar sem tökumaður Stöðvar 2 var með í för. Oddur segir vélina ómissandi áhald fyrir vísindamenn. „Því við sjáum það sem er að gerast og ef það verða breytingar á jörðinni, hvernig sem veðrið er.“

Í meðfylgjandi myndskeiði úr fréttum Stöðvar 2 sýnir Friðrik Höskuldsson, stýrimaður á TF SIF, hvaða búnaður er um borð í vélinni, en í hefðbundnu um það bil fimm tíma flugi safnar búnaður hennar um 60 gígabætum af gögnum sem vistast á harðan disk vélarinnar.

Vísindamenn funduðu í morgun og áfram er fylgst vel með stöðunni í Bárðarbungu og nágrenni hennar. „Ég læt alveg eiga sig að spá fyrir um framhaldið en þetta er ennþá í fullum gangi,“ segir Oddur.


Tengdar fréttir

Er Bárðarbungu ekki um að kenna?

Vísindamenn hallast frekar að því að jarðhræringarnar undir Vatnajökli leiði til eldgoss. Komnar eru fram kenningar um að upptöku óróans sé frekar að leita í eldstöðvakerfi Öskju en Bárðabungu. Kröflueldar virðast vera nærtækasta dæmið um framhaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×