Innlent

„Þetta er eins og sveitasíminn í gamla daga“

Atli Ísleifsson skrifar
Hafnfirðingurinn Guðrún Magnúsdóttir segir mögulegt að nágrannar séu að hlusta á símtal hennar og fréttamanns.
Hafnfirðingurinn Guðrún Magnúsdóttir segir mögulegt að nágrannar séu að hlusta á símtal hennar og fréttamanns. Mynd/Getty/Facebook
„Þetta er bara eins og sveitasíminn í gamla daga. Maður getur bara tekið upp tólið og hlustað á samtal annarra manna,“ segir Guðrún Magnúsdóttir, íbúi við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði, en Guðrún og fjölskylda hennar eiga í miklum vandræðum með símann á heimilinu þessa dagana.

Guðrún segir að upphaflega hafi þau fengið sent bréf þar sem sagt var að til stæði að laga netið hjá hjá þeim þann 15. desember og að það yrði netlaust þann daginn. „Síðan þá höfum við ekki getað horft á sjónvarp, ekki farið á netið í tölvunni eða í farsímanum. Svo er það heimasíminn. Manneskjan á neðri hæðinni gæti verið að hlusta á símtalið okkar núna,“ segir Guðrún létt í bragði í samtali við blaðamann Vísis.

„Við erum líka óvart búin að heyra í henni vera að tala við einhvern í símann og þegar þú hringir í mig þá hringir líka síminn hjá henni.“

Guðrún segist ekki vita hvort ástandið sé eins í öðrum húsum í götunni þar sem einnig er unnið að viðgerðum. „En hér hafa átt sér stað þriggja manna símtöl. Í gær ætlaði ég að hringja í dóttur mína og tek upp tólið og heyri þá að einhverjir eru að tala saman. Ég rétti manni mínum tólið og hann heyrði þá líka þetta samtal. Þá var þetta nágranninn að ræða við einhvern.“

Ertu búin að heyra eitthvað krassandi?

„Nei, en maður gæti svo sem verið að segja einhver leyndarmál þegar annar er að hlusta. Við höfum aldrei lent í einhverju svona áður. Nettengingin hefur verið mjög léleg í þessu húsi, en það er Míla sem er að laga þetta. Þeir eru þó ekki vissir um hvort þeir nái að laga þetta fyrir jól.“

Það verður því mögulega opið upp á gátt hjá ykkur ef svo má segja fram yfir jól?

„Já, mögulega. Svo erum við líka að velta því fyrir okkur hver muni borga símreikninginn. Hvort við séum að hringja á kostnað nágrannans eða öfugt. Við erum búin að hringja fjórum, fimm sinnum út af þessu, en þeir geta ekki gert neitt í þessu fyrr en á mánudaginn og segja að óvíst sé hvort þetta verði komið í lag fyrir jól.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×