Erlent

„Þeir óttast raddir okkar“

Samúel Karl Ólason skrifar
Shireen ásamt vinkonu sinni Kaziwar á víglínunni nærri Raqqa.
Shireen ásamt vinkonu sinni Kaziwar á víglínunni nærri Raqqa. Vísir/AFP
„Þeir óttast raddir okkar," segir 25 ára kona sem hefur barist með sveitum Kúrda (YPG) í Sýrlandi í um fimm ár. Hundruð kvenna hafa gengið til liðs við YPG eftir að vígamenn samtakanna tóku þúsundir kvenna og barna sem tilheyra Jasídum í þrældóm sumarið 2014 og stofnað hópinn YPJ.

YPG stendur í raun fyrir People's Protection Units, en YPJ stendur fyrir Women's Protection Units.

Talið er að um 3.200 Jasídar séu enn í haldi ISIS og þar af að mestu í Sýrlandi.

Vísir/GraphicNews
Samkvæmt trú ISIS-liða er skömmustulegt og bannað að vera veginn af konu og er það eitthvað sem þeir óttast mjög. Því láta Shireen og aðrar konur í YPG vel heyra í sér þegar þær sækja fram gegn ISIS.

YPG ásamt sýrlenskum bandamönnum þeirra hafa stofnað regnhlífarsamtökin SDF, eða Syrian Democratic Forces, og hafa samtökin sótt hart fram gegn ISIS á síðustu mánuðum, með stuðningi Bandaríkjanna og annarra ríkja.

Nú sækja SDF að borginni Raqqa, höfuðvígi Íslamska ríkisins.

Rojda Felat, yfirmaður Shireen, segir konurnar taka þátt í orrustunni um Raqqa til að verja „mæður sínar og systur“.

„Fólk lítur niður á konur af fyrirlitningu og halda því fram að við séum of viðkvæmar, að við ættum ekki að dirfast halda á hníf eða byssu,“ segir Rojda við blaðamann AFP. „En þú getur séð sjálfur að við kunnum að notast við dushka (rússnesk gerð af vélbyssum), við kunnum að nota sprengjuvörpur og við getum einnig fjarlægt jarðsprengjur.“

Shireen segir vígamenn ISIS líta á konur sem þræla. Þess vegna berjist hún. Til að frelsa kynsystur sínar úr þrældómi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×