Lífið

"Þau eru algjörar hetjur, sýna svo mikinn styrk“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Mynd af fjölskyldunni úr skírn Sigurgeirs Hrafns.
Mynd af fjölskyldunni úr skírn Sigurgeirs Hrafns. Vísir/Aðsend mynd
Klara Sigurgeirsdóttir og Einar Karl Kjartansson misstu sitt fyrsta barn tveggja mánaða gamalt þann 16. júlí síðastliðinn. Drengurinn bar nafnið Sigurgeir Hrafn en um vöggudauða var að ræða; engin ástæða fæst og dauðsfallið óútskýrt.

Vinkonur parsins, Drífa Katrín Guðmundsdóttir og Agnes Ásmundsdóttir, hafa sett af stað söfnun fyrir parið.

„Maður getur einhvern veginn ekkert sagt eða gert, þetta er svo óbærilegt. En maður vill reyna að hjálpa eitthvað. Það er óþarfi að fjárhagsáhyggjur leggist ofan á þessa erfiðleika,“ segir Drífa Katrín. Hún segir að reikningurinn hafi í fyrstu aðeins verið hugsaður fyrir bekkjarfélaga Klöru og nána vini. Síðan hafi hún spurt sig hvers vegna hún ætti ekki að vekja athygli á söfnuninni opinberlega. „Það er ábyggilega fullt af fólki sem er tilbúið að hjálpa.“

Drífa á lítinn dreng sjálf.Vísir/Aðsend mynd
Óbærileg tilhugsun að missa barn

Þau Klara og Einar eru rétt um tvítugt, hún starfaði á leikskóla og hann starfar sem öryggisvörður. „Þetta er náttúrulega mikið vinnutap, hann hefði átt að fara í vinnu í síðustu viku en fer að sjálfsögðu ekkert aftur í vinnuna strax.“

Dauðsfallið kom aðstandendum í opna skjöldu enda gerir vöggudauði sjaldnast boð á undan sér. Drífa á sjálf barn og segist ekki geta ímyndað sér hvað vinkona hennar og vinur gangi í gegnum núna. „Hugur manns fer ekki á þennan stað. Maður býst aldrei við því að þetta geti komið fyrir barnið manns. Nú þurfa þau að hlú að sjálfum sér og vinna í sér. Maður vill ekki að þau þurfi að hafa aðrar áhyggjur, til dæmis af því að greiða leigu og svoleiðis. Við viljum hjálpa þeim með þetta.“

Sigurgeir Hrafn verður jarðsunginn í Gufuneskirkjugarði í dag klukkan eitt.

„Þau eru algjörar hetjur, sýna svo mikinn styrk,“ segir Drífa. „Þau eru mjög þakklát fyrir framtakið, eiga ekki orð yfir þetta. Og yfir alla ástina og kærleikann sem þau hafa fengið síðustu daga.“

Reikningurinn sem vinir parsins opnuðu er á nafni Klöru og hér að neðan eru reikningsupplýsingar fyrir þá sem vilja leggja parinu lið:

Reikningsnúmer er 0546-14-403569

Kennitala er 010995-2219






Fleiri fréttir

Sjá meira


×