Bíó og sjónvarp

„Það sérstaka við þessa mynd er að Balti var tilbúinn að ganga skrefinu lengra“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Baltasar Kormákur vildi hafa Everest sem raunverulegasta.
Baltasar Kormákur vildi hafa Everest sem raunverulegasta. vísir
Kvikmyndaverið Universal sem framleiðir kvikmyndina Everest í leikstjórn Baltasars Kormáks birti í gær myndband á Youtube þar sem sýnt er á bak við tjöld við gerð myndarinnar.

Í myndbandinu er rætt við Balta sem og nokkra af aðalleikurum myndarinnar, meðal annars þá Jake Gyllenhaal, Jason Clarke, Josh Brolin og Michael Kelly.

„Baltasar vill að við upplifum allt og hann ýtti okkur í þá átt,“ segir Gyllenhaal.

„Vinsamlegast ekki leika neitt. Það þýðir að við viljum hafa þetta sem raunverulegast,“ segir Baltasar um gerð myndarinnar.

Þau skilaboð virðast hafa komist vel til skila til leikara myndarinnar:

„Það sérstaka við þessa mynd er að Balti var tilbúinn að ganga skrefinu lengra. Hann sagði að við ætluðum að hafa þetta eins raunverulegt og mögulegt væri,“ segir Michael Kelly.

Everest er stærsta mynd Baltasars til þessa en hún verður frumsýnd á opnunarhátíð kvikmyndahátíðarinnar í Feneyjum. Undanfarar Everest síðastliðin tvö ár eru kvikmyndin Gravity, sem vann sjö Óskarsverðlaun 2014, og Birdman, sem vann fern Óskarsverðlaun í ár.

Í viðtali við Fréttablaðið í dag segir Balti það ekkert grin að koma á eftir þessum tveimur myndum:

„Það er náttúrulega bara geðveikt. Tvær tilfinningar, jess! og hin, shit. Í annan stað á ég þetta skilið – en svo er ekkert grín að koma á eftir Birdman og Gravity. Það er enginn smá samanburður,” segir Baltasar og hlær.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×