Innlent

„Það fór bara allur snjórinn úr Hlíðarfjalli og fauk hingað niður í bæ“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Gríðarlega mikill snjór var í Naustahverfi í gær og voru þessar myndir teknar um klukkan 17 þegar hverfið var opnað eftir að hafa verið lokað vegna ófærðar.
Gríðarlega mikill snjór var í Naustahverfi í gær og voru þessar myndir teknar um klukkan 17 þegar hverfið var opnað eftir að hafa verið lokað vegna ófærðar. Vísir
„Já, þetta var alveg svakalegt, við köllum nú ekki allt ömmu okkar hérna en mokstursmennirnir urðu bara sjálfir innlyksa,“ segir Engilbert Ingvarsson, snjómokstursmaður á Akureyri, en loka þurfti Naustahverfi í nokkra klukkutíma í gær þar sem snjómokstursmenn höfðu ekki undan að ryðja göturnar.

Ófært var orðið í hverfinu um ellefuleytið í gærmorgun og var því lokað um hádegisbil. Það var svo opnað aftur klukkan 17 í gær og voru meðfylgjandi myndir tók Engilbert þá.

Engilbert segir að það sé ekki algengt að það þurfi að loka heilu hverfunum en það komi þó fyrir, sérstaklega í suðvestan hvassviðri eins og var fyrir norðan í gær.

„Það getur verið ansi skætt þarna sérstaklega í efri byggðum. Það fór bara allur snjórinn úr Hlíðarfjalli og fauk hingað niður í bæ.“

Aðspurður hvernig fólk í hverfinu hafi tekið lokuninni í hverfinu segir Engilbert að flestir hafi tekið því með jafnaðargeði:

„Það var svolítið erfitt að loka, fólk reyndi að keyra framhjá þó að það kæmist alls ekki. Fólk sneri því bara við og keyrði til baka.“

Engilbert segir að ruðningarnir eftir snjómoksturstækin hafi verið milli 5 og 6 metrar á hæð en unnið var stanslaust að því að moka frá klukkan 8 í gærmorgun þar til klukkan 19. Engilbert segir að nú sé verið að ýta út ruðningum þar sem það sé hægt; það þurfi að rýma til því það er aftur spáð snjókomu á morgun.

„Þetta er bara endalaus mokstur,“ segir Engilbert.

Um 20 snjóruðningstæki eru á götum Akureyrarbæjar að jafnaði og jafnvel um 30 talsins þegar mest lætur.  Hver dagur í mokstri kostar bæinn um nokkrar milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×