Innlent

„Það er ekkert sérstaklega gáfulegt að rækta kannabis í fjölbýlishúsi“

Stefán Ó. Jónsson skrifar
VÍSIR/VALGARÐUR
Umfangsmikil kannabisræktun var stöðvuð í Engjahverfi í Grafarvogi í gærkvöldi.

Tveir menn voru handteknir í tengslum við málið en heimildir Vísis herma að þeir séu fæddir árið 1992 og 1994.

Málavextir voru þeir að lögreglu var tilkynnt um megna kannabislykt í hverfinu sem reyndist stafa frá tveimur íbúðum á fyrstu hæð í fjölbýlishúsi.

Þegar lögreglan fór þar inn reyndust íbúðirnar samliggjandi og voru þær sérstaklega hannaðar til ræktunar.

Ekki var búið í íbúðunum tveimur heldur voru þær einungis nýttar til ræktunar á þeim 130 kannbisplöntum sem lögreglan gerði upptækar.

Í samtali við Vísi segir Árni Þór Sigmundsson, stöðvarstjóri á Vínlandsleið, málið vera til rannsóknar. Kvartað hafi verið undan megnri fíkniefnalykt í hverfinu. „Það er ekkert sérstaklega gáfulegt að rækta kannabis í fjölbýlishúsi,“ bætir Árni við kíminn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×