Lífið

„Það er alltaf svo mikil list í kringum garðinn“

Baldvin Þormóðsson skrifar
"Það finna allir fyrir þessari orku þegar þeir koma í garðinn.“
"Það finna allir fyrir þessari orku þegar þeir koma í garðinn.“ vísir/anton
„Við erum búin að vera með Álfagarðinn í fjögur ár og höfum alltaf verið með Listamannadaginn,“ segir Ragnhildur Jónsdóttir en hinn árlegi Listamannadagur verður haldinn hátíðlegur í Álfagarðinum næsta laugardag.

„Það eru svo margir listamenn sem tengjast okkur og þeir eru að vinna í garðinum, úti með trönur að mála og skissa,“ segir Ragnhildur en hún er búin að setja upp ansi áhugaverða dagskrá yfir allan daginn.

„Það verður spilað á líru og írskar sekkjapípur, öðruvísi hljóðfæri en maður er vanur og svolítið álfaleg,“ segir hún og hlær. „Síðan verður danshópur frá Þýskalandi sem ætlar að túlka verur náttúrunnar.“

Álfagarðurinn er staðsettur í Hellisgerði í Hafnarfirði en garðurinn býður upp á úrval listmuna og listaverka sem tengjast álfum og öðrum verum Álfaheima.

„Það er svo mikil skapandi orka í kringum álfana og fallegur kraftur á milli álfa og manna,“ segir Ragnhildur en oft má sjá listamenn að störfum í Hellisgerði.

„Það finna allir fyrir þessari orku þegar þeir koma í garðinn, en hann er líka bara fallegur garður sama í hvaða vídd þú horfir,“ segir Ragnhildur og bætir því við að Listamannadagurinn í Álfagarðinum hafi alltaf tekist vel.

„Meira að segja þegar það er búið að spá rigningu, sem hefur verið í hvert einasta skipti, þá styttir alltaf upp.“

Ragnhildur hélt nýverið litla álfahátíð þar sem frumflutt var nýtt lag sem samið var sérstaklega við álfabæn.

„Það er alltaf svo mikil list í kringum garðinn,“ segir Ragnhildur sem leiðir einnig álfagöngu um garðinn klukkan 13 sem verður á sérstöku sumartilboði.

„Það verða líka blöð og litir fyrir börnin en fullorðnir geta tekið með sínar listagræjur eða bara notið þess að vera þarna með okkur,“ segir Ragnhildur en hátíðahöldin hefjast klukkan 13 á laugardaginn í Hellisgerði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×