Innlent

„Það eiga að vera fallvarnir til að tryggja að svona geti ekki gerst“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Konan hefur verið á gjörgæslu Landspítalans síðan slysið varð en mikil mildi þykir að hún hafi lifað slysið af.
Konan hefur verið á gjörgæslu Landspítalans síðan slysið varð en mikil mildi þykir að hún hafi lifað slysið af. vísir/pjetur
Forstjóri Vinnueftirlits ríkisins segir það liggja fyrir að umgjörð utan um neyðarleið á svölum við atvinnuhúsnæði á Selfoss, þar sem þrítug kona féll niður rúma sex metra á mánudagskvöld, sé ófullnægjandi gagnvart öryggi. Það sé frumniðurstaða rannsóknar eftirlitsins. 

Konan hefur verið á gjörgæslu Landspítalans síðan slysið varð en mikil mildi þykir að hún hafi lifað slysið af. Bendir allt til þess að hún verði lömuð frá brjósti og niður en hún slasaðist illa á mænu við fallið auk þess að höfuðkúpu- og kinnbeinsbrotna. Hún hefur verið í öndunarvél en þó verið við meðvitund og getað tjáð sig með táknum.

„Málið er  í rannsókn en það liggur alveg fyrir sú frumniðurstaða að umgjörð utan um þessa neyðarleið er ófullnægjandi gagnvart öryggi. Það er okkar frumniðurstaða,“ segir Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlits ríkisins, í samtali við Vísi.

Austurvegur 38 en slysið varð á svölum á bakhlið hússins.Mynd af Já.is
Gera kröfu um örugga flóttaleið

Vitni urðu að því þegar konan féll en svalirnar eru á þriðju hæð í húsi við Austurveg 38 á Selfossi þar sem Sunnlenska fréttablaðið er með skrifstofur. Konan starfaði sem verktaki hjá blaðinu og var við vinnu.

„Flóttaleið af vinnustað er hluti af vinnurýminu. Leiðin á að vera örugg, hvort sem fólk er að fara þangað út í daglegum erindum eða nýta sem flóttaleið,“ segir Eyjólfur.

„Við gerum þá kröfu að flóttaleiðin sé örugg og við tæknilega útfærslu sé haft samráð við Eldvarnareftirlitið,“ segir Eyjólfur en eldvarnareftirlit er á forræði sveitarfélaga.

„Það eiga að vera fallvarnir til að tryggja að svona geti ekki gerst.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×