Innlent

„Það ber enginn höfuðið hátt hérna í röðinni“

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Löng röð myndaðist fyrir utan húsnæði Fjölskylduhjálpar í Breiðholti í dag.
Löng röð myndaðist fyrir utan húsnæði Fjölskylduhjálpar í Breiðholti í dag. vísir/valli
Helena Sjöfn Steindórsdóttir segir það ekki samfélagslega viðurkennt að vera öryrki á Íslandi. Hún segist hafa tapað sjálfsvirðingunni eftir að hafa greinst með mikla gigt vegna vinnuálags og veit fátt verra en að þurfa að bíða í röð eftir mataraðstoð.

Yfir fjögur hundruð fjölskyldur þáðu mataraðstoð frá Fjölskylduhjálp Íslands í dag og var Helena ein þeirra. Hún er móðir þriggja en býr ein í Hafnarfirði.

Dregur úr manni alla orku

„Það ber enginn höfuðið hátt hérna í röðinni. Ég fer ekkert á morgun, mun bara sofa. Þetta dregur úr manni alla orku, en svona er þetta bara. Ef ég kem ekki þá á ég ekki neitt,“ segir hún.

Helena segir matinn duga skammt og þá þurfi að leita ýmissa annarra leiða til að útvega sér fæði. „Við megum koma hingað einn miðvikudag í mánuði og maturinn dugar ekki út mánuðinn. Það er ekki auðvelt, langt því frá, en núna þarf maður bara að reyna að redda sér í gegnum páskana.“

Amalía Kolbrún Úlfarsdóttir beið með Helenu í röðinni. Amalía er sjötug, öryrki, og segist lítið hafa á milli handanna. Hún ól upp fjögur börn og vann alla sína ævi og segir fátt eins særandi og að sjá hvernig komið er fram við þá sem minna mega sín í samfélaginu.

„Ég vann 150 prósent vinnu nánast alla mína ævi en svo þegar maður er orðinn að gamalmenni og öryrkji þá er manni refsað fyrir það. Það er eins og það vilji enginn hafa okkur hérna í þjóðfélaginu,“ sagði Amalía.

Sjá einnig: Hátt í fjögur hundruð fjölskyldur þáðu mataraðstoð

Útrunninn matur

Flestir í röðinni voru á einu máli um að Fjölskylduhjálp stæði vel að hlutunum, en sögðu matinn þó ekki nægan. Þá var það jafnframt gagnrýnt að oft á tíðum væri útrunninn matur á boðstólnum.

Ásgerður Jóna Flosadóttir, framkvæmdastjóri Fjölskylduhjálpar, segir að útrunninn matur sé í boði fyrir þá sem vilja. Séu það mjólkur- eða kjötvörur hafi þær verið frystar og oftast notaðar í neyð. Þurrmatur; kex og annað, sé nánast alltaf í boði.

Röðin verst

Þá sögðu jafnframt flestir að röðin væri einna erfiðust í þessu ferli sem fylgi því að óska eftir aðstoð. Aðstoðinni fylgi mikil skömm og því væri þess óskandi að hún myndi ganga eins hratt fyrir sig og möguleiki væri á. Röðin verður þó oftast afar löng og gengur hægt því hver og einn þarf að sýna fram á að hann eigi rétt á matarúthlutun. Gefa þarf upp kennitölu sem færð er inn í tölvukerfi, sem svo segir til um fjölskylduaðstæður og tekjur hvers og eins. Út frá því er ákveðið hversu mikinn mat hver og einn fær.

„Það er bara agalegt að þurfa að bíða svona, maður vill bara ljúka þessu sem fyrst,“ sagði sextugur karlmaður í röðinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×