Innlent

„Þá fæ ég bara símtal um að bílnum hafi verið stolið um nóttina“

Randver Kári Randversson skrifar
Halldór Geir Halldórsson og Volvo-inn sem stolið var á fimmtudagskvöld.
Halldór Geir Halldórsson og Volvo-inn sem stolið var á fimmtudagskvöld. Myndir/úr einkasafni
„Ég var að láta setja krók á Volvo-inn minn, hjá Víkurvögnum. Bíllinn er klár á fimmtudagskvöldið og þeir setja hann fyrir utan og ætla svo að hringja í mig á föstudeginum og segja mér að hann sé tilbúinn. Þá fæ ég bara símtal um að bílnum hafi verið stolið um nóttina,“ segir Halldór Geir Halldórsson , sem varð fyrir því óláni að bíl hans var stolið síðastliðið fimmtudagskvöld.

Um er að ræða svartan Volvo af gerðinni S80, en Halldór segir ekki marga slíka bíla vera í umferð í Reykjavík. Bíllinn er enn ófundinn, og er Halldór farinn að óttast að erfitt geti reynst að endurheimta hann.

Hann segir að þarna hafi mjög líklega verið vanir menn að verki. Þeir hafi notað plasthanska og því hafi engin fingraför fundist á vettvangi. „Spurningin er hvort að þetta séu ekki mjög líklega einhver erlend glæpagengi sem eru að reyna að senda bílinn út. Maður veit ekki hvernig þeir ætla að koma þessu í verð, ekki selja þeir hann hér eða gera nokkurn skapaðan hlut við hann á Íslandi,“ segir Halldór.

Hann segist hafa látið setja krókinn á bílinn til að geta dregið kerru fyrir vélsleða sem hann keypti sér nýlega. Hann muni því lítið geta notað sleðann á meðan bíllinn finnst ekki.

Málið er nú til rannsóknar hjá lögreglu  og hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýst eftir bílnum á Facebook-síðu sinni. Halldór hvetur alla sem vita eitthvað um málið eða kannast við bílinn að lögregluna á höfuðborgarsvæðinu vita. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×