Innlent

„Tækfæri til að sýna gestum það besta sem bærinn hefur upp á að bjóða“

Vaka Hafþórsdóttir skrifar
Ljósanótt í Reykjanesbæ var sett í dag við mikla athöfn en þetta er í sextánda skipti sem hátíðin er haldin. Það sem upphaflega var eins dags viðburður hefur nú orðið að fjögurra daga hátíð þar sem bæjarbúar bjóða upp á skemmtun af ýmsu tagi.

Aðspurð um hvaða þýðingu Ljósanótt hafi fyrir Reykjanesbæ segir Valgerður Guðmundsdóttir, menningarfulltrúi og  framkvæmdarstjóri Ljósanætur, að þetta sé fyrst og fremst tækifæri til að bjóða gestum í bæinn og sýna þeim allt það besta sem bærinn hefur upp á að bjóða.

Þetta er í tólfta skipti þar sem hátíðin er sett með því móti að öll grunnskólabörn, auk elstu barna leikskóla Reykjanesbæjar, hittast fyrir framan Myllubakkaskóla og sleppa helíumblöðrum í mismunandi litum. Er þetta gert í því skyni að fagna fjölbreytileikanum.

Þó hefur borið á gagnrýnisröddum vegna umhverfismengandi áhrifa þess að sleppa blöðrum út í náttúruna. Fjallað var um málið á Stöð 2 í vikunni. Aðspurður segist Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, ekki sjá fyrir sér aðra útfærslu á setningarhátíðinni en bætir jafnframt við að: „ Þetta þarf allt að endurskoða, velta fyrir okkur hvort við séum að gera rétt. En ef ég ætti að svara núna þá segi ég já, höldum þessu áfram.“


Tengdar fréttir

Festa andlit Reykjanesbæjar á filmu

Ljósmyndaklúbburinn Ljósop ætlar sér að sýna þverskurð samfélagsins með ljósmyndum af tvö hundruð andlitum Reykjanesbæjar. Afraksturinn verður væntanlega sýndur á Ljósanótt í lok sumars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×