Innlent

Stytta má biðlista með því að nýta skurðstofur á Akranesi

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Hægt væri að stytta biðlista eftir liðskiptiaðgerðum úr fimmtán mánuðum í þrjá með því að nýta skurðstofur á sjúkrahúsinu á Akranesi. Skurðlæknir á Landspítalanum segir til mikils að vinna, þar sem biðin reynist sjúklingunum erfið og biðlistar kosti samfélagið tugi milljóna króna á viku.

Í byrjun árs biðu um fimmtán hundruð manns eftir því að komast í aðgerðir til að skipta um hné og mjaðmaliði. Þeir sem lengst höfðu beðið höfðu beðið í fimmtán mánuði. Skurðlæknir á Landspítalanum, segir biðina eftir aðgerðum vera erfiða fyrir sjúklinga. „Það eru góðar rannsóknir sem sýna það að lengri bið heldur en þrír mánuðir veldur varanlegu tjóni hjá mörgum sjúklingum,“ segir Gunnar Mýrdal Einarsson hjartaskurðlæknir á Landspítalanum við Hringbraut.

Gunnar skilaði á dögunum lokaverkefni sínu í MBA námi við Háskólann í Reykjavík ásamt fimm manna hópi. Þar voru skoðaðar leiðir til að stytta biðlistana. Niðurstaðan var sú að hægt væri að stytta biðlista úr fimmtán í þrjá með því að nýta skurðstofur á sjúkrahúsinu á Akranesi.

„Það er til mikils vinna. Fyrir utan sjúklingana sjálfa og þeirra líðan, þá er kostnaður ríkisins eða skattgreiðenda mjög hár. Við áætluðum það út frá breskum stöðlum sem eru svona varlega áætlað að kostnaður íslenska þjóðarbúsins við það að hafa sjúklinga heima, bíða eftir liðskiptaaðgerðum, séu sirka fjörutíu milljónir á viku,“ segir Gunnar.

Hann segir átak stjórnvalda til að stytta biðlistana jákvætt en það dugi ekki til. Nýir sjúklingar bætist sífellt í hópinn svo eina leiðin sé að fjölga aðgerðum. Gunnar hefur starfað mikið í Svíþjóð. Hann segir að þar sé algengt að það séu sérstök aðgerðarsjúkrahús og svo bráðasjúkrahús. Þar séu biðlistar eftir um aðgerðum þrír mánuðir.

Hann segir að skynsamlegt væri fyrir íslensk stjórnvöld að fara slíka leið, þar sem skipulagðar aðgerðir eins og liðskiptiaðgerðir þurfi oft að víkja á Landspítalanum vegna bráðatilfella. Hann segir að sjúkrahúsið á Akranesi heppilegt þar sem það sé nálægt höfuðborginni. Þar séu allar stoðdeildir þegar til staðar en kostnaðurinn við að koma verkefninu af stað væri um 25 milljónir króna.

„Besti árangurinn er að hafa deild sem að sinnir bara þessum plönuðum aðgerðum. Getur einbeitt sér að því og það er engin bráðaþjónusta sem truflar. Þá getur maður haldið flæðinu, því þetta eru aðgerðir sem eru skipulagðar með margra mánaða fyrirfram,“ segir Gunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×