Erlent

"Störf þeirra hafa gefið okkur betri framtíð“

Bjarki Ármannsson skrifar
Uppljóstrarinn Edward Snowden þakkar dagblöðunum fyrir vinnu sína.
Uppljóstrarinn Edward Snowden þakkar dagblöðunum fyrir vinnu sína. Vísir/AFP
Breska blaðið The Guardian og hið bandaríska Washington Post hlutu Pulitzer-verðlaunin eftirsóttu í ár fyrir fréttaflutning sinn um rafrænar njósnir bandarískra yfirvalda.

Blöðin urðu hlutskörpust í flokki fréttaflutnings í þágu almennings. Fréttir þeirra um málið byggðu á skjölum sem Edward Snowden, fyrrverandi verktaki Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna (NSA), lak til þeirra.

Snowden, sem nýtur um þessar mundir hælis í Rússlandi, segist í tilkynningu sem The Guardian birtir vera þakklátur fyrir að verðlaunin hafi hlotnast þessum blöðum.

„Þessi dagblöð njóta þakklætis míns og virðingar fyrir stórkostlega þjónustu þeirra til samfélags okkar,“ segir Snowden. „Störf þeirra hafa gefið okkur betri framtíð og ábyrgara lýðræði.“

Meðal annara sigurvegara voru dagblaðið Boston Globe, fyrir umfjöllun sína um sprengingarnar í Boston maraþoninu í fyrra, og tveir fréttamenn Reuters fyrir alþjóðlegan fréttaflutning.

Það er fjölmiðladeild Columbia-háskólans sem veitir Pulitzer-verðlaunin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×