Lífið

„Stefán, tjáir þú þig um eitthvað þessa dagana?“

Birgir Olgeirsson skrifar
Stefán Eiríksson í Útsvarinu í kvöld.
Stefán Eiríksson í Útsvarinu í kvöld. ruv.is
„Stefán, tjáir þú þig um eitthvað þessa dagana?,“ spurði Sigmar Guðmundsson, spyrill í Útsvari, Stefán Eiríksson, fyrrverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu í þætti kvöldsins þar sem Stefán mátti þola þó nokkur skot vegna atburða dagsins.

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, kynnti í dag niðurstöðu á frumkvæðisathugun sinni á samskiptum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra, og Stefáns. Var það mat umboðsmanns að samskipti Hönnu við Stefán á meðan lögreglan rannsakaði ráðuneytið hefðu verið ósamrýmanleg stöðu ráðherra sem yfirstjórnanda lögreglunnar.

Stefán EiríkssonVísir/Stefán
Stefán hefur ekki verið áberandi í opinberri umræðu frá því hann yfirgaf lögreglustjórastólinn síðastliðið sumar en mætti í Útsvarið í kvöld fyrir hönd Seltjarnarness. Þar spurði Sigmar hvort Stefán tjái sig um eitthvað þessa dagana. „Ef það eru fimmtán stig í boði þá skal ég alveg svara spurningunum þínum,“ svaraði Stefán en Sigmar sagði það vera mikinn heiður að hafa Stefán í sjónvarpssal í ljósi undangenginn atburða.

Þegar kom að flokkaspurningunum tilkynnti Sigmar að reglum þáttarins hefðu verið breytt á þann veg að nú væri það stigahæsta liðið sem ætti að velja fyrst og var það í þessu tilviki lið Stefáns. Á skjánum blöstu við fjórir valflokkar sem voru: Innanríkisráðuneytið, trúnaðargögn, leynifundir og umboðsmaður.

„Hvenær á þessu einelti að ljúka,“ spurði Stefán léttur í bragði í kjölfarið. Sigmar spurði hvaða flokk Stefán vildi og svaraði lögreglustjórinn fyrrverandi: „Heyrðu, umboðsmaður er í miklu uppáhaldi hjá mér.“

Sigmar uppljóstraði þá að þáttastjórnendur væru að fíflast í honum og komu í kjölfarið upp „hefðbundnir“ valflokkar.

Sjá má klippu úr þættinum inn á vef RUV.is hér. 


Tengdar fréttir

Óásættanlegt ef stjórnvöld neita að gefa réttar upplýsingar

Umboðsmanni Alþingis var tíðrætt um það á fundi stjórnskipunar-og eftirlitsnefndar í morgun að hann hefði án árangurs óskað eftir upplýsingum frá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur um samskipti hennar og Stefáns Eiríkssonar vegna lekamálsins.

Segir afskipti Hönnu Birnu óeðlileg

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, segir að samskipti Hönnu Birnu við Stefán Eiríksson, fyrrverandi lögreglustjóra, hafi verið ósamrýmanleg stöðu ráðherra sem yfirstjórnanda lögreglunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×