Innlent

„Sá sem gerði þetta gæti átt yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsi“

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér má sjá hræið af kanínunni sem fannst í gær.
Hér má sjá hræið af kanínunni sem fannst í gær. Mynd/Kristín Ása Einarsdóttir
„Þetta er skýrt brot á fjölda laga og gæti sá sem gerði þetta átt yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsi,“ segir Árni Stefán Árnason, lögfræðingur sem sérhæft hefur sig í réttindum dýra. Í gær gekk Kristín Ása Einarsdóttir fram á hræ af kanínu sem hafði verið rist á hol í Öskjuhlíðinni. Hún tók mynd af þessu og spurði hver gæti verið svo grimmur.

Árni Stefán segist ekki skilja hver gæti gert svona. „Ég veit ekki hvað rekur menn út í að gera þetta. Ég veit ekki hvaða hvatir liggja þarna að baki. Svo virðist sem einhverjir njóti þess að kvelja dýr. Þetta hefur alla vega ekki verið gert til þess að afla sér matar, því skrokkurinn er skilinn eftir. Þetta eru því einhverjar aðrar hvatir. Ásetningurinn er greinilegur“

Árni Stefán Árnason er lögfræðingur sem sérhæft hefur sig í réttindum dýra.
Hann segir að þetta sé mjög alvarlegt brot gegn fjölda laga um dýravernd. „Það er hægt að færa þetta í margar greinar. Þetta er stórfellt brot. Þetta er alveg ömurlegt að sjá þetta.“ 

Árni segir að svo virðist sem dýrum sé mismunað eftir stærð. „Litlu dýrin verða fyrir sérstaklega grófri meðferð. Dýr sem eru minni en kettir lenda oft í mjög grófum árásum. Til dæmis eru lifandi hamstrar stundum notaðir sem fæða fyrir stórar slöngur. Það er auðvitað algjörlega óheimilt.“

Eins og sjá má á meðfylgjandi korti fannst kanínan nálægt gömlu skotbyrgi í Öskjuhlíðinni, sem snýr út að flugvallarvegi.

Hér má sjá hvar kanínan fannst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×