Fótbolti

„PSG rústaði markaðnum með kaupunum á Neymar“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Neymar var rándýr.
Neymar var rándýr. Vísir/Getty
Franska stórliðið Paris Saint-Germain eyðilagði leikmannamarkaðinn með kaupunum á Neymar og ekki verður ástandið skárra þegar það gengur endanlega frá kaupum á franska ungstirninu Kylian Mbappé frá Monaco.  Þetta er skoðun brasilíka framherjan Giovane Elber sem áður spilaði með Bayern München og Lyon.

PSG borgaði Barcelona 222 milljónir evra fyrir Neymar og á eftir að greiða Monaco 180 milljónir fyrir Mbappé. Samtals eru þetta 402 milljónir evra á einu ári eða ríflega 50 milljarðar íslenskra króna.

Eðlilega velta menn því fyrir sér hvernig PSG sleppur í gegnum Financial Fair Play-reglurnar með svona kaupum en evrópska knattspyrnusambandið hefur staðfest að það er að skoða þessi viðskipti.

Elber er þeirrar skoðunar að félög til dæmis í Þýskalandi geti ekki lengur keppt við PSG sem hann vill meina að sé að skaða markaðinn.

„Það er ekkert félag í þýsku 1. deildinni sem getur borgað 100 eða 200 milljónir fyrir leikmann. Fyrir utan það er enginn leikmaður svona mikils virði,“ segir Elber í viðtali við DAZN.

„Neymar er frábær leikmaður en PSG rústaði markaðnum með þessum kaupum með því að borga svona verð. Og ekki bara kaupin á Neymar heldur Mbappé líka. Að borga 200 milljónir evra fyrir hann er bara óheilbrigt fyrir fótboltann,“ segir Giovani Elber.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×