Viðskipti innlent

„Ótrúlegt“ að aðalmaðurinn sleppi við ákæru í málinu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hólmsteinn Gauti Sigurðsson, saksóknari hjá sérstökum saksóknara, og starfsmenn embættisins í dómsal.
Hólmsteinn Gauti Sigurðsson, saksóknari hjá sérstökum saksóknara, og starfsmenn embættisins í dómsal. vísir/anton brink

Bæði verjandi Jóhannesar Baldurssonar, Reimar Pétursson, og verjandi Þorvalds Lúðvíks Sigurjónssonar, Björgvin Þorsteinsson, gerðu það að umtalsefni hversu ótrúlegt það væri að aðalmaður í meintu umboðssvikabroti skjólstæðinga þeirra skuli ekki sæta ákæru í Stím-málinu.

Jóhannes, sem var framkvæmdastjóri Glitnis, er ákærður fyrir umboðssvik vegna kaupa GLB FX, fagfjárfestasjóðs innan Glitnis sjóða, á skuldabréfi sem útgefið var af Stím. Eigandi bréfsins var Saga Capital og er Þorvaldur Lúðvík, sem var forstjóri Sögu, ákærður fyrir hlutdeild í meintu broti Jóhannesar.  

Vísað í Al Thani-dóminn

Vilja verjendurnir meina að aðalmaður í brotinu sé lykilvitni sérstaks saksóknara, Magnús Pálmi Örnólfsson, sem samdi sig frá saksókn í málinu þegar hann breytti framburði sínum og bar vitni gegn Jóhannesi sem var yfirmaður hans hjá Glitni. Magnús Pálmi skrifaði undir samninginn vegna kaupa á skuldabréfinu þar sem hann var sjóðsstjóri GLB FX.

Reimar og Björgvin lögðu báðir áherslu á það í sínum málflutningi að Jóhannes hafi ekki haft formlegt vald til að taka ákvörðun varðandi GLB FX. Vísaði Reimar meðal annars í dóm Hæstaréttar í Al Thani-málinu þar sem fjallað er um það skilyrði umboðssvika að ef til álita komi að sakfella mann sem aðalmann í broti þá verði hann að hafa formlegt vald til ákvörðunar.

Einsýnt að sýkna beri Þorvald þar sem ósannað sé að Jóhannes hafi brotið af sér

„Minn skjólstæðingur hafði ekkert formlegt vald til þessarar ákvörðunar og þess vegna getur ekki komið til álita að dæma hann fyrir annað en hlutdeild,“ sagði Reimar en áréttaði jafnframt að í raun kæmi það ekki heldur til álita þar sem ekki væri hægt að dæma mann sekan í máli þar sem hann nyti friðhelgi. Vísaði verjandinn í dóm Mannréttindadómstól Evrópu máli sínu til stuðnings

Björgvin tók undir málflutning Reimars. Sagði hann ekkert væri um það í ákæru hvers konar umboð Jóhannes hafði til að kaupa skuldabréfið af Sögu Capital. Þá vantaði öll tengsl milli Jóhannesar og GLB FX svo hann hafi getað gerst sekur um umboðssvik. Því væri einsýnt að það ætti að sýkna Þorvald Lúðvík af hlutdeild í meintum brotum Jóhannesar þar sem engin sök hafi verið sönnuð á Jóhannes.

Aðalmeðferð málsins lauk í dag og ætti dómur því að verða kveðinn upp innan fjögurra vikna.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×