Innlent

"Ókostir beins lýðræðis eru verulegir"

Jóhannes Stefánsson skrifar
Gunnar Helgi segir forsetann eiga heiðurinn, eða sökina, að því að nú sé landinn farinn að safna undirskriftum um hin ýmsu mál.
Gunnar Helgi segir forsetann eiga heiðurinn, eða sökina, að því að nú sé landinn farinn að safna undirskriftum um hin ýmsu mál.
Landinn hefur í auknum mæli brugðið á það ráð að safna undirskriftum til að þrýsta á hin ýmsu málefni, en undirskriftasafnanir um að klára viðræður við ESB, kjör öryrkja, úthlutunarreglur LÍN, veiðileyfagjöld og betra veður eru komnar í loftið svo dæmi séu tekin.

Fréttastofa hafði samband við Gunnar Helga Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hann segir Forseta Íslands eiga heiðurinn að þessari miklu aukningu á tilhneigingu þjóðarinnar til að safna undirskriftum til stuðnings málstað sínum. Undirskriftunum er því jafnan safnað í þeirri von að málið rati fyrir augu forseta sem vísi málinu þá í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Heiðurinn, eða sökin, forsetans

„Forsetinn kom þessum bolta af stað með því að vísa til undirskriftasafnana í synjunum sínum á lögum. Fólk hefur bara tekið við þeim bolta og reynir að gera sér eins mikinn mat úr því og það getur," segir Gunnar og bætir við: „Ég held að það sé nú ekki flóknari skýring en það."

Gunnar segir um séríslenskt fyrirbæri að ræða. „Ég efast um að þetta sé alþjóðleg tilhneiging. Líklega er um séríslenskt fyrirbæri að ræða. Það er reyndar þannig að það er víða verið að leita fjölþáttari þáttökutækifæra almennings og undirskriftir falla í þann flokk. Að því leytinu er þetta hluti af alþjóðlegri þróun. Þetta form, undirskriftir, er þó algjörlega vegna forsetans. Hann á heiðurinn á þessu, eða sökina, eftir því hvernig þú lítur á það."

Ókostir beins lýðræðis mjög miklir

Eins og kunnugt er sagði Sigmundur Davíð á Alþingi fyrir skemmstu að stór galli þjóðaratkvæðagreiðslna væri sá að með þeim væri hætta á að meirihlutinn misnotaði minnihlutann. Undir þetta tekur Gunnar.

„Það er ákveðið lýðræðislegt vandamál við það að leysa alla hluti í þjóðaratkvæðagreiðslum. Dæmið sem ég tek oft er frá Belgíu. Flæmskumælandi Belgar eru 60% þjóðarinnar og önnur þjóðarbrot eru minni. Ef að öll mál væru leyst í þjóðaratkvæðagreiðslu þá hefði minnihlutinn ekki 40% áhrif heldur hefði hann 0% áhrif. Hættan er sú við þjóðaratkvæðagreiðslur, að ef að það eru einhverjir viðvarandi meirihlutar þá geta þeir beitt minnihlutann misrétti. Kostur fulltrúalýðræðisins er að þar er einhver vettvangur til að sjatla mál, gera málamiðlanir og svo framvegis," segir hann.

Þá segir Gunnar að mörgum yfirsjáist ókostir beins lýðræðis og að umræðan sé einstrengingsleg. „Mér finnst þetta tal um beint lýðræði vera komið langt fram úr einhverju sem að einhver rök standa til. Það er eitt ríki í heiminum sem að notar beint lýðræði í einhverjum verulegum mæli og það er Sviss. Það er eitt sérviskulegasta lýðræðisríki heims en engin önnur lönd hafa talið sér fært eða séð ástæðu til að fara sömu leið og Sviss."

Stjórnmálamenn þora ekki að tala um ókosti lýðræðis

Hann segir menn fullyrða of mikið um kosti beins lýðræðis og skauti yfir ókostina. „Hér ræða menn um beint lýðræði eins og það sé einhver augljós leið og það blasi bara við að það sé betra lýðræðiskerfi heldur en önnur kerfi. Ég held að það sé miklum vafa undirorpið að svo sé og áður en menn fara að kokgleypa þá beitu að þá væri nú ástæða til að velta fyrir sér hvaða kosti og galla hefur beint lýðræði. Ókostirnir eru verulegir."

Aðspurður að því hvort stjórnmálamenn veigri sér að benda á ókosti lýðræðis segir Gunnar: „Já það má vel vera að séu feimnir við að fara út í þann slag. Það er hætt við því að þeir fái yfir sig dálitla dembu eins og þeir séu þá á móti lýðræði og allt það." Því eigi fulltrúalýðræðið sér stundum ekki mjög áberandi málsvara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×