Viðskipti innlent

"Núna er komið að þolmörkum“

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Höfuðstöðvar Creditinfo verða fluttar til Ítalíu eða Spánar. Eigandi fyrirtækisins, sem starfar í ellefu löndum, segist hafa gefist upp á að bíða eftir stjórnvöldum um áætlun varðandi afnám hafta. Hann skrifaði bæði forsætisráðherra- og fjármálaráðherra bréf eftir að þingsályktun um slit viðræðna við Evrópusambandið var lögð fram á Alþingi.

Reynir Grétarsson, stærsti hluthafi og stofnandi Creditinfo, hefur tekið ákvörðun um að flytja höfuðstöðvar fyrirtækisins úr landi og koma Ítalía eða Spánn til greina. Kjarninn greindi fyrst frá áformum fyrirtækisins í dag.

Creditinfo er leiðandi í lánstraustshugbúnaði og vanþróuð ríki, þar sem slík þjónusta er lítil eða ekki í boði, eru helstu markaðir.

Ekki mun koma til fjöldauppsagna vegna þessarar ákvörðunar enda mun starfsfólkið hér heima sinna verkefnum fyrirtækisins á Íslandi. 

Í bréfi sem Reynir sendi Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra, skömmu eftir að þingsályktun um slit aðildarviðræðna við ESB var lögð fram á Alþingi, segir Reynir m.a: „Ég tel að það eigi að vera forgangsverkefni að hlúa að rekstrarumhverfi sérhæfðra þekkingarfyrirtækja. Það verður best gert með að finna lausnir sem ógna ekki íslensku hagkerfi heldur þvert á móti styðja aukinn hagvöxt.“ 

Reynir fór yfir ástæðu þess að Creditinfo flytur höfuðstöðvarnar úr landi í viðtali við Stöð 2 í kvöld. Reynir sagði að fyrirtækið hafi viljað vera nær mörkuðum sínum en fjármagnshöftin hafi einnig skipt miklu máli. „Við erum að keppa við fyrirtæki sem hafa miklu betri aðgang að fjármagni og borga lægri vexti og það gengur í einhvern tíma en núna er komið að þolmörkum. Það gengur ekki lengur,“ sagði Reynir.

Höftin hindra vöxt - lokað á raunhæfa leið úr höftum

Gjaldeyrishöftin gera vöxt íslenskra fyrirtækja afar erfiðan. Evrópusambandsaðild og evra gegnum myntsamstarf EMU hefur verið nefnt sem raunhæf leið Íslands út úr gjaldeyrishöftum.Því vekur tímapunktur bréfs Reynis óneitanlega athygli. 

„Það var svona tímapunktur. Þú þarft alltaf að hafa plan B og ef að plan A er farið þá þarftu að hafa Plan C líka. Þannig er að það í viðskiptum. Maður þarf að áætla nokkur ár fram í tímann. Og gera það sem maður telur skynsamlegt með hliðsjón af því hvað er líkleg þróun. Við getum ekki keppt til lengri tíma við alþjóðleg fyrirtæki sem hafa miklu betri aðgang að fjármagni,“ sagði Reynir Grétarsson.

Eftir að ríkisstjórn Íslands stöðvaði aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins lagði Evrópusambandið niður sérstakan starfshóp sem hafði það verkefni að aðstoða við afnám gjaldeyrishafta. 

Hópurinn var skipaður fulltrúa FME, fulltrúa fjármálaráðuneytisins og einum fulltrúa Seðlabankans auk fulltrúa Evrópusambandsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×