Innlent

„Nóttin bara eins og um venjulega helgi“

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá akureyrska ráðhústorginu.
Frá akureyrska ráðhústorginu. Visir/auðunn
Að sögn Jóhanns Olsen varðstjóra á Akureyri gekk nóttin í höfuðstað norðurlands alveg „dásamlega vel“ fyrir sig.

Lögreglan þurfti að hafa lítil sem engin afskipti af gestum hátíðarinnar Einnar með öllu sem þar fer fram, þó svo að íbúafjöldi sé nú nánast tvöfalt meiri en alla jafna.

Nóttin hafi þannig verði alveg stórslysalaus, „hún var nánast bara eins og venjuleg helgi,“ segir Jóhann. Einungis nokkrir smávægir pústrar komu inn á borð lögreglunnar í nótt en þó var eitthvað um ölvun eins og gengur og gerist á nóttum sem þessum.

Tveir hafi þó fengið að gista hjá lögreglunni í nótt og bætir Jóhann við að þeir væru þó farnir aftur til síns heima, eða til síns tjalds, þegar Vísir hafði samband.

Margvísleg dagskrá var í bænum í gær og ber þar hæst að nefna ball með Páli Óskari í Sjallanum þar sem hann þeytti skífum og skemmti lýðnum eins og honum einum er lagið langt fram undir morgun.



 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×