Innlent

„Mun halda áfram þar til sigur vinnst“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Þórunn Sveinbjörnsdóttir.
Þórunn Sveinbjörnsdóttir. vísir/anton brink
„Saman stöndum við vaktina um að við séum með í ráðum um okkar eigin efri ár. Það eru mannréttindi að fólk sé fært um að sjá fyrir sér hvern mánuð. Við viljum að fólk finni til þess að virðing sé borin fyrir lífi okkar, alla ævi, en ekki að fólk kvíði deginum þegar buddan er tóm.“

Þetta sagði Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Félags eldri borgara, á fundi félagsins og Gráa hersins í Háskólabíói í kvöld þar sem fulltrúar allra stjórnmálaflokka sátu fyrir svörum. Hún sagði félagið ekki ætla að láta af baráttunni fyrir bættum kjörum aldraðra fyrr en sigur vinnist.

„Eldri borgarar hafa ekki samningsrétt og því auðvelt að snuða þá um prósentur þegar metið er hvað sé réttlátt. Það má ekki vera þannig. Því hefur Félag eldri borgara í Reykjavík hert baráttuna og við bættist Grái herinn,“ sagði hún. Stjórnvöld fái ekki lengur að snuða eldri borgara, líkt og þau hafi meðal annars gert með því að rukka eldri borgara ríflega tvöfalt meira í tannlæknakostnað en reglugerð kveði á um.

„Þar skuldar ríkið fólki um 800 milljónir frá því að reglugerð var sett um greiðsluhlutföll. Einnig minnum við á að kaup á heyrnartækjum eru mörgum ofviða. Við setjum á oddinn að ná fram 300 þúsund króna lágmarki fljótt. Barátta fyrir bættum kjörum, mannréttindum og virðingu alla ævi eru metnaðarfull orð en þetta mun halda áfram þar til sigur vinnst. Nú er komið að okkur með lagfæringar.“

Þórunn benti fulltrúum stjórnmálaflokkanna jafnframt á að mikið sé í húfi, eða fjörutíu þúsund atkvæði eldri borgara.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×