Erlent

„Minningin um Verdun er alltaf til staðar"

Birta Björnsdóttir skrifar
Frakkar og Þjóðverjar mættust á vígvellinum í Verdun þegar fyrri heimsstyrjöldin stóð sem hæst. Barist var í tíu mánuði á svæðinu, sem er í norð-austur hluta Frakklands. Frakkar höfðu að lokum betur en 300 þúsund hermenn týndu lífi í þessum lengsta samfelda bardaga fyrri heimsstyrjaldarinnar.

Þau Angela Merkel kanslari Þýskalands og Francois Hollande, forseti Frakklands, minntust tímamótanna í dag og sögðust líka á Verdun sem táknrænan stað fyrir sættir á milli Frakka og Þjóðverja.

Athöfnin hófst á því að þau Hollande og Merkel heim­sóttu her­manna­kirkju­g­arð í Conten­voye skammt norður af Ver­d­un. Þaðan var haldið í her­manna­kirkju­g­arðinn í Ver­d­un þar sem minn­is­varði var af­hjúpaður og blóm­sveig­ur lagður að hon­um.

„Verdun festist ekki sem dýrkun dauðans heldur er litið til hennar til að ná friðarmarkmiðum. Að þessu leyti er Verdun borg sem er fulltrúi bæði þess versta, þar sem Evrópa villtist af leið fyrir 100 árum, en einnig þess besta þar sem borgin gat byggt sig upp og sameinast fyrir frið og fransk-þýska vináttu. Lengi lifi andi Verdun," sagði Francois Hollande, forseti Frakklands.

„Það er alveg víst að á meðal ykkar sem hér eruð geta einhverjir sagt frá sorglegum kafla í fjölskyldusögu sinni. Og í landslagi borgarinnar sjást ummerki stríðsins enn í dag. Minningin er þannig alltaf til staðar," sagði Angela Merkel, kanslari Þýskalands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×