Innlent

„Mikilvægt að ná áföngum í stjórnarskrárbreytingum á þessu kjörtímabili“

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir ræddi við Heimi Má Pétursson í Víglínunni í hádeginu í dag.
Katrín Jakobsdóttir ræddi við Heimi Má Pétursson í Víglínunni í hádeginu í dag. Vísir/Anton Brink
Katrín Jakobsdóttir segir það vera mikilvægt að ná einhverjum áföngum í stjórnarskrárbreytingum á þessu kjörtímabili og að flokkarnir komi til með að setjast niður á næstu dögum og ræða þau mál. Rætt var við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, í Víglínunni á Stöð 2 og Vísi í hádeginu í dag. 

„Ég vona að við getum sett af stað vinnu við stjórnarskrárbreytingar núna á þessu kjörtímabili. Ég hef verið að eiga samtöl við fulltrúa flokkanna um það og vonast til þess að við getum sammælst um það setjast niður saman og vinna að því markmiði,“ sagði Katrín.

Hún segir að þrátt fyrir að hafa verið komin langt á veg með þessar umræður árið 2016 hafi samstaða ekki náðst. „Við vorum langt komin árið 2016 en þar náðum við ekki endanlegri samstöðu í þeim ákvæðum sem þar voru undir. Það voru helst auðlindaákvæði, umhverfisákvæði og ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur en þetta eru þau ákvæði sem fengu mestan stuðning í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012.“

Þá segir hún einnig að töluverð umræða hafi verið um breytingarákvæði stjórnarskráinnar og hvort það megi breyta því þannig að stjórnarskrárbreytingar þurfi ekki að fara fram í gegnum tvö þing og kosningar. „Ég held að það sé mjög mikilvægt að setja þessa vinnu strax í gang.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×