Innlent

„Mikil mildi að ekki fór verr“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þrír bílar eru ójónaðir eftir að trukkurinn rann á þá.
Þrír bílar eru ójónaðir eftir að trukkurinn rann á þá. Vísir
Mikil mildi þykir að enginn slasaðist þegar að trukkur með veghefil aftan í vagni rann stjórnlaust frá Holtagörðum og að verkstæði Bernhards Vatnagörðum síðdegis í dag.

„Mér skilst að ökumaðurinn hafi stoppað trukkinn fyrir utan Holtagarða. Hann yfirgefur svo bílinn og þá rennur bíllinn af stað,“ segir Karl Arthursson á skrifstofu Bernhard í samtali við Vísi, en mbl.is greindi fyrst frá málinu fyrr í dag. Talið er að ökumaður bílsins hafi gleymt að setja trukkinn í handbremsu.

„Bíllinn rennur sem sagt frá Holtagörðum, brýtur niður brunahana og fer yfir gatnamót hérna. Þar er bíll stopp á stöðvunarskyldu, trukkurinn fer aftan á hann og ýtir honum talsvert langt. Síðan sveigir trukkurinn hér inn á bílastæðið hjá okkur,“ segir Karl.

Dyrnar á verkstæði Bernhards voru opnar. Trukkurinn ýtti bíl sem var kyrrstæður á bílastæðinu þversum í dyrnar á verkstæðinu.

„Síðan rennur hann áfram, fer hér utan í splunkunýja Hondu Civic sem átti að afhenda í dag og endar svo á að keyra utan í húsið þar sem verkstæðið er. Hann skemmir klæðninguna hérna á húsinu,“ segir Karl.

Óljóst er hversu mikið tjónið er en trukkurinn tjónaði tvo af bílum Bernhards, auk bílsins sem var stopp á stöðvunarskyldu á gatnamótunum. Karl segir mestu mildi að ekki fór verr:

„Það er náttúrulega mikill skriðþungi á þessu; stór trukkur með veghefil aftan í. Hann hefur líka runnið geysilega vegalengd, hann byrjar þarna fyrir utan Holtagarða og endar hér hjá okkur við Vatnagarð 24-26.“

Hér sést hvernig trukkurinn klessti á verkstæði Bernhards.
Bíllinn sem stopp var á gatnamótum og trukkurinn fór aftan á og ýtti talsverða vegalengd.
Bíllinn sem trukkurinn ýtti þversum í dyr verkstæðisins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×