Fótbolti

"Messi pakkaði okkar saman aðeins 16 ára“

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Messi er hér að fagna með Ronaldinho á sínu fyrsta tímabili með félaginu.
Messi er hér að fagna með Ronaldinho á sínu fyrsta tímabili með félaginu. vísir/getty
Leikmenn Barcelona fengu snemma að kynnast því hversu góður í fótbolta Lionel Messi er. Hann var aðeins gutti er hann var farinn að pakka strákunum í aðalliðinu saman.

Frakkinn Ludovic Giuly lék með Barcelona frá 2004 til 2007 og hann segir að það hafi verið ótrúlegt er Messi byrjaði að mæta á æfingar með aðalliðinu.

„Messi var bara 16 ára en hann var að pakka okkur saman á æfingunum. Strákarnir spörkuðu endalaust í hann til að forðast niðurlægingu en strákurinn sagði ekki neitt. Stóð bara upp og hélt áfram að spila,“ sagði Giuly er hann rifjaði upp þennan tíma.

„Allt sem hann gerði skapaði hættu. Þetta var með ólíkindum. Hann labbaði fram hjá fjórum leikmönnum og skoraði. Miðverðirnir okkar voru meira að segja hræddir við hann. Þeir tóku fast á honum en hann kvartaði ekki. Hann var eins og geimvera. Hann slátraði okkur.“

Messi spilaði svo fyrsta leik sinn fyrir Barcelona árið 2005. Í dag er hann búinn að skora yfir 450 mörk fyrir félagið aðeins 29 ára að aldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×