Innlent

„Meintur nauðgari“

Edda Sif Pálsdóttir skrifar
Í fyrra hélt ungur nýútskrifaður stúdent til Vestmannaeyja á Þjóðhátíð ásamt vinum sínum. Eins og gerist urðu þeir viðskila, umræddur strákur hitti stelpu og þau fóru saman inn í tjald þar sem þau sváfu saman. Héldu þau síðan hvort í sína áttina en seinna um kvöldið sótti lögregla strákinn þar sem hann hafði verið sakaður um nauðgun. Við tók ítarleg líkamsrannsókn. 

„Ég er beðinn um að gyrða niður um mig, eyrnapinnum stungið inn eftir öllu, klippt af mér punghár, nærbuxurnar teknar, ég látinn pissa í glas og blóðprufa tekin. Síðan er ég bara læstur inni í klefa.“

Strákurinn, sem kýs að koma ekki fram undir nafni, gisti fangageymslur um nóttina með merkinguna „Meintur nauðgari“ á hurðinni. Vinir hans voru yfirheyrðir og allt þeirra hafurtask tekið til geymslu. Daginn eftir dró stelpan ásakanir sínar til baka og strákurinn í kjölfarið látinn laus. 

„Ég labba út og hringi í mömmu. Hún bað mig um að koma heim en ég var aldeilis ekki á því. Ég fór á fótboltaleik, stoppa svo við í Ríkinu og eiginlega drakk þetta frá mér. Allur Dalurinn var auðvitað búinn að frétta þetta. Svo fór ég heim og á mánudeginum þegar byrjað er að renna af mér gerði ég eitthvað sem ég hef aldrei gert, ég bara grenjaði."

Fjölskyldan leitaði til Stígamóta, sálfræðings og lögfræðings en úrræðin voru af skornum skammti. Málið hefur haft mikil áhrif á strákinn.

„Þetta er rosalegt vald sem stelpur hafa, að geta sagt eitthvað svona. Ég bara biðla til þeirra að misnota það ekki. Það er rosalega erfitt að vera með þetta á bakinu þegar maður hefur ekki gert neitt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×