Innlent

„Máttur Facebook er mikill“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hús Írisar var á leiðinni á nauðungarsölu í október en eftir niðurfellingu skuldarinnar verður ekki af því.
Hús Írisar var á leiðinni á nauðungarsölu í október en eftir niðurfellingu skuldarinnar verður ekki af því. Mynd/Íris Dröfn
Endurmenntun Háskóla Íslands hefur fellt niður 298.000 króna skuld konu sem sótti aldrei námskeið hjá stofnuninni en átti engu að síður að greiða fyrir það.

Íris Dröfn Kristjánsdóttir deildi sögu sinni á Facebook fyrir helgi og vakti færslan mikla athygli. Íris greindi frá því að hún hafi lent í nokkrum fjárhagserfiðleikum, meðal annars verið í umræddri skuld við Endurmenntun, og húsið hennar væri á leiðinni á nauðungarsölu í október.

Skuldin var tilkomin vegna námskeiðs sem Íris hafði skráð sig í árið 2012. Hún hætti svo við að sækja námskeiðið þar sem hún komst inn í mastersnám við Háskóla Íslands. Hún hringdi því í Endurmenntun til að láta vita af því að hún ætlaði ekki að sækja námskeiðið.

Það dugði ekki til heldur hefði hún átt að skrá sig úr námskeiðinu rafrænt. Það var þá orðið of seint og krafði Endurmenntun hana um greiðslu fyrir námskeiðið. Íris var ekki sátt við það. Námskeiðið kostaði 98.000 krónur en skuldin hafði hækkað um 200.000 krónur á tveimur árum.

Innheimtuaðgerðir oft ótrúlega stífar og strangar

„Ég fékk bara símtal frá Endurmenntun á sunnudaginn þar sem mér var tjáð að um mistök hafi verið að ræða og að skuldin yrði felld niður,“ segir Íris í samtali við Vísi. „Málið var að ég vissi um sambærilegt tilvik þar sem skuldin hafði verið felld niður. Endurmenntun vildi hins vegar ekki gera það í mínu máli og hélt skuldinni til streitu.“

Þar sem skuldin hefur verið felld niður heldur Íris húsinu sínu sem hún er afar ánægð með. Hún segir mátt Facebook greinilega mikinn en með færslunni vildi hún almennt vekja athygli á innheimtuaðgerðum sem séu oft á tíðum ótrúlega stífar og strangar.

„Þó að fullur greiðsluvilji sé fyrir hendi þá er oft erfitt að leysa úr málunum ef maður lendir í innheimtuaðgerðum þar sem kostnaðurinn sem fylgir því er svo gríðarlegur,“ segir Íris.

Í lok Facebook-færslunnar greinir Íris svo frá því að hún hafi ekki fengið greidd laun frá fyrirtæki sem hún vann fyrir í sumar. Íris starfaði þá við dagskrárgerð fyrir iSTV og hafa þeir fjórir þættir sem hún gerði allir farið í loftið. Hún segist ekki vita hvort eða hvenær hún fái laun fyrir þá vinnu.

„Aðalhluthafarnir vilja meina að þeim hafi ekki verið kunnugt um samninga sem gerðir við okkur dagskrárgerðarfólk. Við drögum það hins vegar í efa. Enginn hefur svo fengið greidd laun og ég veit ekki hvernig fer með það mál,“ segir Íris. Í seinustu viku sögðu dagskrárstjóri, framkvæmdastjóri og markaðsstjóri stöðvarinnar upp en Íris segist hafa átt í mjög góðu samstarfi við þá.

Uppfært 19:20

Eftirfarandi tilkynning barst frá Endurmenntun HÍ í dag:

VEGNA FYRIRSPURNAR UM INNHEIMTUAÐGERÐIR ENDURMENNTUNAR HÁSKÓLA ÍSLANDS

Samkvæmt lögum getur Endurmenntun Háskóla Íslands ekki tjáð sig um málefni einstaklinga svo sem um einkunnir, skuldastöðu og innheimtuaðgerðir. Endurmenntun getur þó tjáð sig almennt um fyrirfram ákveðið ferli sem gildir um allar afskráningar. Viðskiptavinir sem hringja til Endurmenntunar til að afboða sig af námskeiði fá strax viðhlítandi úrlausn sinna mála. Tekið skal fram að ef um afskráningu í síma er að ræða er nauðsynlegt að hringja í þjónustuborð Endurmenntunar en ekki til annarra aðila innan Háskóla Íslands svo sem nemendaskrár.

Samkvæmt skilmálum sem fólk samþykkir við skráningu á námskeið þarf viðkomandi að tilkynna forföll með tölvupósti að minnsta kosti 48 klukkustundum áður en námskeið hefst. Ef viðkomandi hringir til að afskrá sig er hann vinsamlegast beðinn að senda tölvupóst þar að lútandi. Hafi viðkomandi ekki tök á því á þeim tímapunkti er honum strax sendur tölvupóstur um afskráninguna sem hann er beðinn um að staðfesta. Það er jafnframt skráð í gagnagrunn Endurmenntunar.

Skilmálar Endurmenntunar HÍ sem viðskiptavinir samþykkja við skráningu á námskeið eru eftirfarandi:

„Ef greitt er með greiðslukorti við skráningu á heimasíðu Endurmenntunar HÍ verður skuldfært af korti greiðanda um það leyti sem námskeið hefst. Að öðrum kosti eru greiðsluseðlar sendir til þátttakenda. Athugið að námskeiðsgjaldið mun innheimt að fullu ef skráður þátttakandi hættir við að sitja námskeið, en hefur ekki tilkynnt forföll með tölvupósti til Endurmenntunar á netfangið endurmenntun@hi.is að minnsta kosti 48 klukkustundum áður en námskeið hefst.

Endurmenntun áskilur sér rétt til að innheimta 5.000 kr. í umsýslugjald vegna þeirra sem afboða sig fyrir fyrrgreind tímamörk. Heimilt er að senda annan þátttakanda í stað þess sem forfallast. Vinsamlegast látið okkur vita um allar breytingar með eins góðum fyrirvara og unnt er.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×