Enski boltinn

Mario Balotelli æfir ekki með Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Balotelli.
Mario Balotelli. Vísir/Getty
Mario Balotelli hefur ekki undirbúningstímabilið með Liverpool en þessi 24 ára ítalski framherji fékk leyfi hjá félaginu vegna persónulegra ástæðna.

Balotelli mætti ekki á fyrstu æfingu liðsins á nýju tímabili sem var í gær en seinna kom í ljós að kappinn var ekki að skrópa í vinnuna.

Ástæður leyfisins voru ekki gefnar upp en það efast enginn um að það leyfið tengist fráfalli fósturpabba hans Francesco um helgina.

„Ég vil þakka öllum fyrir stuðninginn. Ég vil virkilega þakka öllum. Fjölskyldan mín þakkar ykkur öllum fyrir líka," skrifaði Mario Balotelli á twitter.

Mario Balotelli fæddist í Palermo á Ítalíu og foreldrar hans eru frá Gana. Fjölskylda í Brescia á Ítalíu ættleiddi hann hinsvegar frá tveggja ára aldri.

Liverpool vill ekki gefa upp nánari upplýsingar um leyfið en það er búist við því að Balotelli komi með í æfingaferð liðsins til suðaustur Asíu og Ástralíu.

Liverpool keypti Mario Balotelli á sextán milljónir punda frá AC Milan síðasta haust en hann fann sig ekki á sínu fyrsta tímabili á Anfield og skoraði aðeins tvö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×