Innlent

„Maður spyr sig hvort borgarfulltrúar í Reykjavík sjái alkóhólista og fíkla einvörðungu fyrir sér í gámum“

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Arnþór Jónsson og starfsfólk á Vogi.
Arnþór Jónsson og starfsfólk á Vogi.
„Reykjavíkurborg hefur auðvitað í gegnum tíðina lítið vilja vita af starfsemi SÁÁ og aldrei getað unnið með samtökunum á uppbyggjandi hátt í þágu borgarbúa. En þessi ómalbikaði vegarspotti er náttúrulega fyrir löngu orðinn niðurlægjandi og skammarlegur fyrir Reykvíkinga og þá sérstaklega borgarfulltrúa þeirra síðustu 30 ár," segir í frétt Arnþórs Jónssonar, formanns SÁÁ, á heimasíðu samtakanna, þar sem Arnþór gerir sér mat úr ómalbikuðum vegi sem liggur upp að sjúkrahúsinu Vogi.

„Það er sjálfsagt hægt að finna upp einhverjar afsakanir eða eftiráskýringar á þessu 30 ára gamla sleifarlagi, en þaðan sem við hjá SÁÁ horfum blasir við að Reykjavíkurborg telur það ekki ómaksins vert að ganga sómasamlega frá götu og gangstígum sem liggja í átt að spítala þar sem eru alkóhólistar og fíklar," heldur Arnþór áfram í pistli sínum.

„Maður spyr sig hvort borgarfulltrúar í Reykjavík sjái alkóhólista og fíkla einvörðungu fyrir sér í gámum í öskutunnuporti úti á Granda. En þar er náttúrulega búið að malbika."

Starfsfólk á Vogi 2014
Í pistli Arnþórs segir einnig að sjúkrahúsið Vogur hafi verið tekið í notkun þann 28. desember 1983.

„Á þeim tíma voru ekki önnur hús í því hverfi við Stórhöfða þar sem spítalinn stendur. Og þarna hefur sjúkrahúsið staðið í 30 ár og tekið á móti þúsundum sjúklinga, aðstandendum þeirra, sjúkrabílum daglega og lögreglubílum og vöruflutningabílum."


Vegurinn að sjúkrahúsinu Vogi



Fleiri fréttir

Sjá meira


×