Viðskipti innlent

„Loksins alvöru samkeppni“

Samúel Karl Ólason skrifar
Ólafur Haraldsson, framkvæmdastjóri Nýs Valkosts, var gestur í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Ólafur Haraldsson, framkvæmdastjóri Nýs Valkosts, var gestur í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Vísir/Vilhelm
Upplýsinganúmerið 1819 og vefsíðan 1819.is verða formlega opnuð í dag. Það er fyrirtækið Nýr valkostur ehf. sem stendur að baki 1819, en það miðlar upplýsingum um símanúmer og vistföng einstaklinga og fyrirtækja á sviði upplýsingatækni og símaþjónustu.

„Með tilkomu 1819 verður loksins alvöru samkeppni á þessum markaði,“ segir Ólafur Haraldsson, framkvæmdastjóri Nýs Valkosts í tilkynninu.

„Hingað til hefur eitt fyrirtæki, Já, verið með einokunarstöðu á markaðnum. Við vonumst til að geta veitt félaginu, sem að okkar mati er í markaðsráðandi stöðu, virka samkeppni og aðhald, sem mun vonandi leiða til hagstæðari verðlagningar og aukinnar þjónustu fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Við höfum orðið vör við að einstaklingar og sérstaklega fyrirtæki tekja mikla þörf á aukinni samkeppni á þessum markaði.“

Í tilkynningunni segir að 1819 muni byggja upp fjölbreytta þjónustu fyrir viðskiptavini, enda verði vöruþróun í öndvegi hjá félaginu.

1819 hefur gert samning við Hið íslenska númerafélag, sem er sameiginlegur vinnsluaðili fyrir fjarskiptafyrirtækja um aðgang að númera- og vistfangaskrá.

„Í því felst að HÍN gerir 1819 kleift að veita viðskiptavinum 1819 ákveðnar grunnupplýsingar eins og þær eru skilgreindar í 2. gr. verklagsreglna Póst- og fjarskiptastofnunar um skráningu og miðlun upplýsinga og fleira frá 4. júní 2014.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×