Innlent

„Löggæzlumaður fullyrðir að hafa skotið í neyðarvörn og miðað til jarðar“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Úr Nýja dagblaðinu. Skjáskot af vefnum timarit.is.
Úr Nýja dagblaðinu. Skjáskot af vefnum timarit.is.
Í tilefni af umræðunni um vopnabúnað lögreglunnar og byssurnar sem Norðmenn gáfu okkur, eða gáfu okkur ekki, rifjar fréttavefurinn Austurfrétt upp atvik sem varð á Norðfirði þann 1. desember 1934. Þá skaut lögreglumaður varnarskotum að óeirðarseggjum á kvenfélagssamkomu í bænum. Sagt var frá atvikinu í Nýja dagblaðinu.

Í fréttinni „Ryskingarnar á Norðfirði“ er vísað beint í skýrslu bæjarfógetans til dómsmálaráðuneytisins og sagt frá því þegar ölvaður maður reyndi að komast inn á kvenfélagssamkomu í bænum.

Lögreglumaður bannaði manninum að fara á samkomuna en við það „varð uppþot“ og var veist að lögreglumanninum. Annar lögreglumaður ætlaði þá að koma honum til hjálpar en hann var sleginn í rot.

Segir svo orðrétt í fréttinni í Nýja dagblaðinu:

„Varð þröng mikil. Löggæzlumaðurinn barinn og illa leikinn. Kylfan slitin af honum og 4 menn tóku hann og báru niður tvo stiga og settu hann út af 2 ½ metra háum tröppupalli. Mannfjöldi þyrptist að með hrópyrðum og ógnunum. Löggæzlumaðurinn skaut þá varnarskotum, 3 að því er hann ber, en aðrir framburðir ósamhljóma. [...]

Löggæzlumaður fullyrðir að hafa skotið í neyðarvörn og miðað til jarðar og verður hvorttveggja að teljast líklegt, eins og málið liggur fyrir.“

Í lok fréttarinnar er svo tekið fram að þegar full sönnun hafi legið fyrir því að lögreglumaðurinn beitti skotvopnum hafi dómsmálaráðherra ákveðið að víkja honum frá störfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×