Innlent

„Líklegt að unglingar eða fullorðnir hafi verið þarna að verki“

Hjörtur Hjartarson skrifar
„Ég tel mig hafa sloppið vel," segir hjólreiðamaður sem er illa lemstraður eftir að hafa hjólað á vír sem strengdur var þvert yfir brú við Elliðaá. Lögreglan segir engar vísbendingar hafa borist um hver var að verki en ljóst sé að hinn seki hafi stofnað lífi samborgara sinna í hættu með verknaðinum.

Atvikið átti sér stað, síðdegis á sunnudaginn. Þriggja millimetra vír úr brúnni hafði verið strengdur þvert yfir hana sem aftur skapaði mikla hættu fyrir þá sem þar áttu eftir að fara um.

Jón Arnar Baldurs átti sér einskis ills von þegar hann var að hjóla um Elliðarárdalinn, Hann hjólaði á vírinn, steyptist því næst fram fyrir sig og skall á andlitið. Hann segir að ekki sé hægt að segja að honum hafi brugðið.

„Maður í sjálfu sér áttaði sig ekki á því hvað var að gerast. Allt í einu var maður bara á flugi í loftinu. Þetta var bara ótrúlegt. Ég botnaði ekkert í þessu,“ segir Jón Arnar.

Jón var saumaður 11 spor í ennið, hann tognaði illa á öxlinni, vinstri höndin á honum er blá og marin sem og hægra hnéið á honum. Hjálmur, hjól og gleraugu bera greinilega ummerki líka.

„Einhvernveginn finnst manni þetta þannig framkvæmt að þetta séu nú meira en einhverjir krakkar sem eru að gera þetta. Mér finnst svona líklegra að unglingar eða fullorðnir sem hafi gert þetta. Maður áttar sig bara ekki á því hvað fólki gengur til.“

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskaði í dag eftir vísbendingum frá almenningi sem hjálpað gætu til við að leysa málið sem hún lítur mjög alvarlegum augum.

Einar Ásbjörnsson, lögreglufulltrúi segir engan grunaðan á þessu stigi málsins. Hann segir að þó Jón Arnar hafi slasast mikið má ljóst vera að enn verr hefði getað farið.

„Ef þetta hefði verið barn á hjóli þá hefði þetta getað lent á brjósti eða hálsi. Þetta er þriggja millimetra vír sem hefði getað valdið verulegum skaða,“ segir Einar.

Jón Arnar hefur verið sárþjáður undanfarna sólarhringa og með öllu óvinnufær. Hann vonar að sá seki gefi sig fram.

„Ég ætla að kæra þetta. Það liggur alveg ljóst fyrir,“ segir Jón Arnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×