Innlent

"Leitin algjörlega stjórnlaus“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Border Collie-hundurinn Hunter er enn ófundinn, svo virðist sem hann hafi horfið á Miðnesheiði.
Border Collie-hundurinn Hunter er enn ófundinn, svo virðist sem hann hafi horfið á Miðnesheiði.
Hvorki tangur né tetur hefur fundist af hundinum Hunter sem slapp úr búri sínu á föstudaginn þrettánda júní síðastliðinn á Keflavíkurflugvelli. Hópur sjálfboðaliða hefur leitað hundsins stundanna á milli en án árangurs.

Í nótt var fellibúr, eins konar gildra, sett upp í þeirri von að hundurinn léti gabbast og færi inn í búrið. Árni Stefán Árnason, lögfræðingur og einn þeirra sem leitar hundsins, telur að hundurinn hafi fært sig austur á bóginn.

„Erlendir sérfræðingar tala um að hann gæti verið kominn margar mílur frá Leifsstöð. Þannig að það er í raun aldrei að vita hvar hann gæti haldið sig en það eru dæmi um það að Border Collie hafi horfið í allt að fjórtán daga áður en hann loks fannst,“ segir Árni.

Búrið sett upp.mynd/árni stefán
Árni segir mikið af ábendingum hafa borist varðandi hundinn, og kann hann öllum þeim sem hafa haft samband miklar þakkir. Hann segir þó töluvert af tófu á sveimi á þessum slóðum og telur líkur á að fólk rugli saman hundinum og tófunni. Ólíklegt sé þó að tófan hafi ráðist á hundinn.

Þá segir Árni að enga aðstoð sé að fá, hvorki frá lögreglu né Matvælastofnun og gagnrýnir það harðlega. „Það sem veldur okkur mestum vonbrigðum er hvað opinberir aðilar hafa ekkert komið að þessari aðstoð. Leitin hefur verið algjörlega stjórnlaus. Eigandanum hefur ekki boðist nein aðstoð frá opinberum aðilum og þá sérstaklega Matvælastofnun. Þetta tel ég mjög ámælisvert,“ segir Árni.

Hunter er svartur Border Collie með hvítum skellum. Verið var að flytja hann yfir Atlantshafið en þurfti að millilenda hér á landi. Þegar verið var að flytja hann yfir í aðra flugvél opnaðist búrið og slapp hann í kjölfarið. Málið er litið mjög alvarlegum augum því strangar reglur gilda um innflutning hunda til Íslands og er tilgangur þeirra að tryggja eins og best verður á kosið að ekki berist til landsins ný smitefni.

Verði fólk hundsins vart er það beðið um að hafa tafarlaust samband við lögregluna á Suðurnesjum í síma 420-1800 eða við Árna Stefán í síma 695-2662.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×