Lífið

„Langbest að skeytið hafi fundist í Björgvin“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Björgvin Matthías Hallgrímsson sendi skeytið árið 1999 þegar hann var nemandi í Höfðaskóla á Skagaströnd.
Björgvin Matthías Hallgrímsson sendi skeytið árið 1999 þegar hann var nemandi í Höfðaskóla á Skagaströnd. Mynd/Facebook
Björgvin Matthías Hallgrímsson var 11 ára gamall nemandi í Höfðaskóla á Skagaströnd þegar hann sendi flöskuskeyti árið 1999.

Skeytið rataði alla leið til Noregs, eins og Vísir greindi frá fyrr í dag, og segir Björgvin, sem starfar sem sjómaður, að hann hafi ekki átt von á því að skeytið myndi berast svona langt.

„Allir í bekknum sendu svona skeyti en ég veit ekki til þess að skeyti frá bekkjarsystkinum mínum hafi skolað einhvers staðar á land,“ segir Björgvin í samtali við Vísi.

Sendi mikið af flöskuskeytum sem barn

Hann er úr sveit nærri Skagaströnd og segist hafa sent mikið af flöskuskeytum sem barn.

„Ætli flest þeirra hafi nú ekki bara ratað á ströndina hinu megin við fjörðinn, eða eitthvað slíkt, ef þau hafa ekki bara farið eitthvert lengst út á haf. Það er svolítið sérstakt hvað þetta er búið að fara langt en það sem mér finnst langbest í þessu er að skeytið hafi fundist í Björgvin.“

Geir Ola Korsnes fann flöskuskeytið við Tofterøy í Noregi.Mynd/Vestnytt
Komst í samband í gær við þann sem fann skeytið

Skeytið fann Norðmaðurinn Geir Ola Korsnes við Tofterøy í Noregi sem er einmitt skammt frá borginni Bergen, eða Björgvin.

Geir komst í samband við sendandann í gær.

„Hann setti þetta bara á Facebook og hann var kominn í samband við mig fljótt, áður en þetta kom til dæmis í fréttunum hérna heima. Við erum aðeins búnir að spjalla saman og honum finnst þetta bara mjög skemmtilegt og mér auðvitað líka.“

Aldrei að vita nema hann sendi annað flöskuskeyti

Björgvin segir ótrúlegan fjölda fólks hafa haft samband við sig í gegnum Facebook í dag til að spyrja hann hvort hann væri sendandinn.

„Þetta er bæði fólk sem þekkir mig og þekkir mig ekki. Ég hef bara ekki haft undan við að svara þessu, það eru svo margir búnir að hafa samband,“ segir Björgvin og bætir við að lokum að það sé aldrei að vita nema hann sendi eitt skeyti til viðbótar við öll þau sem hann sendi í gegnum tíðina sem strákur.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×