Handbolti

„Kraftaverkið í Kraká“ hjá Degi á pari við Dani 1992 og Grikki 2004

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dagur Sigurðsson lyftir Evrópuskildinum í gær.
Dagur Sigurðsson lyftir Evrópuskildinum í gær. vísir/getty
„Langt undir yfirborði jarðar sprakk íslenska eldfjallið,“ segir í grein á vef Eurosport þar sem Degi Sigurðssyni og afreki þýska handboltalandsliðsins á Evrópumótinu í Póllandi er lofað.

Dagur Sigurðsson stýrði yngsta landsliði EM-sögunnar til gullverðlauna í Póllandi í gær þegar strákarnir hans pökkuðu Spáni saman, 24-17, í ótrúlegum úrslitaleik.

Sjá einnig:Fullkomið Dagsverk

Eftir leikinn og afrekið, sem í greininni er kallað „Kraftaverkið í Kraká“, lagði þýska liðið undir sig kjallarann á veitingastaðnum La Grande Mamma og skemmti sér fram á nótt.

„Dagur Sigurðsson lyfti gyllta verðlaunaskildinum upp fyrir haus og öskraði af gleði: „Sja la la la la“ Vanalega er Íslendingurinn mjög rólegur,“ segir í greininni.

Þýska landsliðið er búið að endurskrifa handboltasöguna að mati greinarhöfundar, en fyrir mótið vantaði fimm lykilmenn og á mótinu sjálfu missti Dagur svo tvo af þremur bestu mönnum liðsins í meiðsli.

„Það má bera þetta saman við Evróputitla Dana og Grikkja í fótbolta 1992 og 2004. Svo magnað var afrek þýska liðsins,“ segir í greininni.

Sjá einnig:Dagur, kunna Íslendingar að fagna?

Markvörðurinn Andreas Wolff var í miklu stuði eftir sigurinn sem og í leiknum sjálfum, en hann varði tæplega 50 prósent skotanna sem hann fékk á sig í úrslitaleiknum.

„Við komum inn í þetta mót sem lið og í góðu formi. Þó margir efuðust gerðum við það aldrei. Við vissum að við yrðum Evrópumeistarar,“ sagði Andreas Wolff.

Sigurhátíð fyrir þýska liðið verður á gamla heimavelli Dag Sigurðssonar í Max-Schmelling Höllinni í Berlín klukkan 13.30 í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×