Innlent

„Koma gömlu konurnar, eina ferðina enn!“

Hrund Þórsdóttir skrifar
Tvær systur ætla sér að ganga allar götur á höfuðborgarsvæðinu og eru komnar vel áleiðis með verkið. Þær fara út í öllum veðrum og stefna jafnvel á að ganga til Ísafjarðar næsta sumar.

Hugmyndin kviknaði því þær Elfa Björk og Guðríður Benediktsdætur vildu koma skipulagi á gönguferðir sínar. Þær ákváðu að ganga markvisst um borgina og merkja við gengnar götur á kortum úr símaskránni.

Þær þekkja orðið höfuðborgarsvæðið betur en flestir og er gamli miðbærinn í uppáhaldi. „Mér fannst líka gaman að sjá hvað hefur tekist vel til í Grafarholtinu og þessum nýju hverfum, hvað þau eru fjölskyldu- og íbúavæn,“ segir Elfa.

Þær systur hafa þegar gengið allar götur í Kópavogi og á Kjalarnesi, í Breiðholti og Norðlingaholti, sem og í Grafarholti og Grafarvogi. Þá hafa þær gengið Reykjavík úr austri og alla leið vestur fyrir Snorrabraut og samkvæmt okkar útreikningum eru þetta samtals yfir 500 kílómetrar, varlega áætlað.

„Þegar við heyrðum að þetta  væru orðnir svona margir kílómetrar sem við værum búnar að leggja að baki, þá kom upp hvort við ættum ekki bara að labba til Ísafjarðar í sumar,“ segir Guðríður og þær hlæja báðar.

Á göngu um borgina gerist ýmislegt skemmtilegt og við eina götu Reykjavíkurborgar segja þær systur flest húsin skarta alveg eins gardínum. „Svo var einn ægilega sætur ungur maður á reiðhjóli sem var búinn að mæta okkur mörgum sinnum, ég held að þetta hafi verið á Hjallaveginum eða þar í kring. Við vorum búnar að fara fram og til baka göturnar og þá segir hann: „Koma gömlu konurnar, eina ferðina enn!“. Það gerði gæfumuninn þann daginn,“ segir Elfa og þær skellihlæja.

Þær segja notalegt að þekkja göngufélagann vel. „Við erum mjög nánar og blöðrum um allt milli himins og jarðar en við getum líka arkað áfram steinþegjandi og okkur líður samt vel,“ segir Guðríður að lokkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×