Innlent

„Kjarni íslenskrar þjóðmenningar verður ekki skráður í svínakjöt“

Atli Ísleifsson skrifar
Jón Gnarr mun skrifa á hverjum laugardegi í dálkinn Mín skoðun í helgarblaði Fréttablaðsins.
Jón Gnarr mun skrifa á hverjum laugardegi í dálkinn Mín skoðun í helgarblaði Fréttablaðsins. Vísir/Ernir
„Mig dreymdi það um daginn að maður kom til mín og sagði mér að mesta upphefð sem Íslendingi gæti hlotnast væri sú að fá að deyja í eldgosi,“ segir Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri, í fyrsta pistli sínum sem birtist í helgarblaði Fréttablaðsins í morgun.

Jón fjallar í pistli sínum meðal annars um stofnun Friðarseturs í Reykjavík og spyr hvað sé íslenski þjóðmenning. „Íslensk þjóðmenning er ekki bara bundin við unnar kjötvörur og danskar pylsur, eins og margir stjórnmálamenn virðast halda. Ef það væri svo þá gæti hver sem er bara étið það í sig að vera Íslendingur. En það er ekki svo einfalt. Kjarni íslenskrar þjóðmenningar verður ekki skráður í svínakjöt.“

Jón segist í pistlinum vera einn sem trúi því staðfastlega að mannkynið verði sífellt betra og betra og fleiri og fleiri átti sig á því að framtíð okkar og framfarir byggjast æ minna á samkeppni og baráttu heldur á aukinni samvinnu, samskiptum og félagsskap. „Við höfum alltaf um þetta tvennt að velja; ofbeldi eða samræður. Ofbeldi kann, í fljótu bragði, að virðast einföld lausn. En reynslan sýnir að afleiðingarnar eru yfirleitt flóknar og hræðilegar.“

Jón mun skrifa á hverjum laugardegi í dálkinn Mín skoðun í helgarblaði Fréttablaðsins. Pistillinn birtist svo samdægurs hér á Vísi sem og í enskri þýðingu í flipanum News in English á Vísi.

Jón er sem kunnugt er búsettur í Houston þar sem hann starfar sem rithöfundur við Rice-háskólann.

Lesa má pistilinn í heild sinni hér og í enskri þýðingu hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×