Innlent

„Kaldar kveðjur eftir 35 ára starf“

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Sigurður Bessason, formaður Eflingar, segir að stjórnendum Landspítalans sé fullkunnugt um það álag sem sé á starfsfólki við ræstingar. Þeir láti sem þeim komi það ekki við, þar sem störfin hafi verið boðin út. Þannig ætli menn líka að hafa það í stjórnarráðinu en Ríkiskaup auglýsa nú eftir tilboðum í ræstingar þar eftir að átján ræstingakonum var sagt upp störfum.

Fyrrum ræstingakonur í stjórnarráðinu, þær Bára Valtýsdóttir og Hulda Eygló Karlsdóttir, sem var sagt upp störfum á dögunum gáfu lítið fyrir þessa sparnaðarleið í samtali við kvöldfréttir Stöðvar 2. Flestar konurnar þurfi að fara á atvinnuleysisbætur enda lítið um störf fyrir konur sem eru um og yfir sextugt.

Sigurður segir að menn þar ætli greinilega að bjóða ræstingarnar út og láta síðan eins og þeim komi aðbúnaður starfsfólksins ekki við. „Ég segi hinsvegar, þetta mál er á borði ráðherra,“ segir Sigurður í samtali við kvöldfréttir Stöðvar 2.

Tólf Pólverjar sjá nú um að ræsta 26 þúsund fermetra á Landspítalanum í Fossvogi en 32 starfsmenn höfðu sama starf með höndum áður en ræstingar voru boðnar út skömmu eftir hrun. Það var fyrirtækið Hreint sem hreppti verkið og starfsmennirnir kveinka sér undan álagi og kvarta yfir kjörum sínum.  

Hörpu Ólafsdóttur hagfræðingi var hent út af fundi með yfirmönnum fyrirtækisins sem starfsmenn höfðu beðið hana um að sitja.

„Þetta var ótrúlegt atvik og mikil vanvirða við fólkið sem beðið hafði um aðstoð Eflingar á fundinum,“ segir Harpa sem segist aldrei hafa lent í neinu viðlíka í starfi. Þetta varð til þess að þeir ellefu starfsmenn sem mættir voru gengu allir af fundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×